Enski boltinn

Segja að þrjú félög í ensku úrvalsdeildinni séu á eftir Jóhanni Berg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson hefur komið með beinum hætti að átta mörkum Burnley á leiktíðinni.
Jóhann Berg Guðmundsson hefur komið með beinum hætti að átta mörkum Burnley á leiktíðinni. Vísir/Getty
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley eru svo gott sem búnir að tryggja sér áframhaldandi veru í ensku úrvalsdeidinni með því að ná í 43 stig í fyrstu 30 leikjunum.

Það er hinsvegar ekkert öruggt að Jóhann Berg verði áfram í herbúðum liðsins á næstu leiktíð.

Íslenski landsliðsmaðurinn er eftirsóttur þessa dagana ef marka má uppsláttarfrétt hjá enska blaðinu The Sun.





The Sun segir að Leicester, Newcastle og Southampton hafi öll áhuga á því að kaupa Jóhann Berg af Burnley en hann er metinn á um 20 milljónir punda.

Jóhann Berg hefur staðið sig mjög vel á tímabilinu og er fastamaður í liði Burnley. Hann er nú 27 ára gamall og því að detta inn á sín bestu ár í boltanum.





Jóhann Berg hefur byrjað alla leiki Burnley síðan í október og er alls með 2 mörk og 6 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Rafa Benitez, knattspyrnustjóri Newcastle, er sagður verið mikill aðdáandi íslenska landsliðsmannsins og þar segja að Leicester sé að leita sér að eftirmanni Riyad Mahrez sem verður að öllum líkindum seldur í sumar.

Southampton hefur líka fylgst lengi með Jóhanni Berg en liðið er í harðri fallbaráttu og allt eins líklegt að það spili í ensku b-deildinni á komandi leiktíð.

Burnley mun líka bjóða Jóhanni Berg nýjan og betri samning eftir framistöðu hans á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×