Erlent

„Bókarinn í Auschwitz“ látinn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Oskar Gröning var 96 ára þegar hann lést.
Oskar Gröning var 96 ára þegar hann lést. vísir/getty
Fyrrverandi SS-liðsmaður sem starfaði í Auschwitz-útrýmingarbúðunum í Póllandi, Oskar Gröning, er látinn, 96 ára að aldri, en hann var dæmdur fyrir aðild sína að helförinni árið 2015.

Gröning þurfti þó aldrei að sitja í fangelsi því enn var verið að áfrýja máli hans þegar hann lést. Hann var kallaður „bókarinn í Auschwitz“ en hann hafði þann starfa að skrásetja allar eigur þeirra sem sendir voru í gasklefana og var hann dæmdur meðsekur að morðum á 300 þúsund gyðingum sem þar létu lífið.

Gröning hóf störf í Auschwitz aðeins 21 árs gamall. Við réttarhöldin yfir honum sagði Gröning að hann hefði orðið vitni að fjöldamorðum en neitaði að hafa tekið þátt í þjóðarmorðum á Gyðingum. Þegar hann beindi orðum sínum til dómaranna við réttarhöldin sagði hann:

„Ég bið um fyrirgefningu. Ég er siðferðislega sekur en hvort ég er sekur samkvæmt hegningarlögum er ykkar ákvörðun.“

Gröning var fundinn sekur þrátt fyrir að engin bein sönnunargögn tengdu hann við tiltekin morð. Voru réttarhöldin og dómurinn yfir honum talin marka þáttaskil í Þýskalandi þar sem fjölmargir SS-liðsmenn hafa farið frjálsir ferða sinna þar sem ekki voru næg sönnunargögn til þess að tengja þá við tiltekin morð.

Þýskir fjölmiðlar segja að líklegast sé Gröning síðasti nasistinn sem dæmdur verður fyrir misgjörðir sínar en færri en fimmtíu fangaverðir af þeim 6500 sem störfuðu í Auschwitz fengu fangelsisdóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×