Erlent

Tyrkir segjast hafa umkringt Afrin

Samúel Karl Ólason skrifar
Sókn Tyrkja inn í héraðið hefur staðið yfir síðan í janúar en þeir njóta liðsinnis sýrlenskra uppreisnarmanna.
Sókn Tyrkja inn í héraðið hefur staðið yfir síðan í janúar en þeir njóta liðsinnis sýrlenskra uppreisnarmanna. Vísir/AFP

Tyrkneski herinn og bandamenn þeirra hafa umkringt borgina Afrin í Afrin-héraði í Sýrlandi, að eigin sögn. Í yfirlýsingu segir að herinn hafi fangað mikilvæg svæði í kringum borgina. Kúrdar segja það ekki rétt að hún sé umkringd en verið sé að gera stórskotaliðsárásir á alla vegi til og frá henni. Hundruð borgara hafa flúið Afrin og inn á yfirráðasvæði stjórnarhers Bashar al-Assad en Kúrdar hafa veitt Assad-liðum stjórn á fjölda þorpa suður af Afrin.

Um 350 þúsund manns búa í borginni.

Afrin-hérað er við landamæri Tyrklands en héraðið lýtur stjórn sýrlenskra Kúrda. Sókn Tyrkja inn í héraðið hefur staðið yfir síðan í janúar en þeir njóta liðsinnis sýrlenskra uppreisnarmanna. Þá hafa Tyrkir verið sakaðir um að gera loftárásir á almenna borgara og sömuleiðis hafa uppreisnarmenn þeirra meðal annars verið sakaðir um aftökur borgara og þjófnað.

Tyrkir segja sýrlenska Kúrda, YPG, vera tengda Verkamannaflokki Kúrda, PKK, í Tyrklandi og vera hryðjuverkasamtök. YPG neita því að tengjast PKK með beinum hætti og Bandaríkin, sem hafa stutt Kúrda gegn Íslamska ríkinu, taka undir það.

Herinn segist hafa fellt og handsamað 3.393 „hryðjuverkamenn“ frá því að aðgerðir þeirra í Afrin hófust, samkvæmt frétt BBC. Kúrdíski Rauði hálfmáninn, hjálparsamtök, segja rúmlega 230 almenna borgara hafa fallið og þar á meðal 35 börn. 688 munu hafa særst. Tyrkir neita hins vegar að hafa gert árásir á almenna borgara og innviði.

Undanfarna daga hefur sókn Tyrkja náð miklum hraða og hafa þeir nálgast borgina Afrin hratt. Talið er að þeir stjórni um 60 prósentum af héraðinu. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hélt því fram að borgin væri umkringd í síðustu viku og jafnvel að hermenn Tyrklands væru að nálgast miðbæ borgarinnar. Það reyndist þó ekki vera rétt hjá forsetanum.

Kúrdar hafa ítrekað hótað því að láta ekki staðar numið í Afrin og að ráðast næst á bæinn Manbij, sem Kúrdar og bandamenn þeirra frelsuðu frá Íslamska ríkinu. Eftir að Kúrdar tóku Manbij árið 2016 gerðu Tyrkir innrás í Sýrland til að koma í veg fyrir að Kúrdar gætu tengt yfirráðasvæði sín í austurhluta Sýrlands við Afrin-hérað. Af ótta við að Tyrkir réðust á Kúrda sendu Bandaríkin hermenn til Manbij. Tyrkir, bandamenn Bandaríkjanna í Atlantshafsbandalaginu, hafa hótað því að ráðast á þessa hermenn og reglulega hefur verið skotið á þá.


Tengdar fréttir

Telja lík Hauks enn vera í þorpinu þar sem hann féll

Fulltrúi útlagastjórnar sýrlenskra Kúrda í Afrin segir lík Hauks ennþá vera í þorpinu þar sem hann féll en kveðst í samtali við fréttastofu hvorki geta sagt af né á um hvort fleiri Íslendingar hafi gengið til liðs við hersveitir kúrda í Sýrlandi.

Vill að herinn hverfi frá Afrin

Herlið Tyrklands í Afrin-héraði Sýrlands ætti að snúa heim og láta af aðgerðum gegn YPG, hersveitum sýrlenskra KúrdaAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.