Erlent

Sprenging við bílalest forsætisráðherra Palestínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Rami Hamdallah, forsætisráðherra Palestínu, eftir árásina.
Rami Hamdallah, forsætisráðherra Palestínu, eftir árásina. Vísir/AFP

Sprenging varð við bílalest Rami Hamdallah, forsætisráðherra Palestínu þar sem hann heimsótti Gaza í dag. Samkvæmt heimildum AFP fréttaveitunnar var einnig skotið á bílalestina. Ráðherrann sakaði ekki en sjö særðust lítillega. Fatah-hreyfingin, sem Hamdallah tilheyrir, hefur sakaða Hamas, sem ráða ríkjum á Gaza, um að hafa reynt að ráða ráðherrann af dögum.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en íslamistar sem eru andvígir Hamas eru einnig með starfsemi á Gaza. Innanríkisráðuneyti Hamas segir að rannsókn sé hafin og þrír hafi verið handteknir.

Eftir árásina tók Hamdallah þátt í opnun skolphreinsistöð á Gaza en hann yfirgaf svæðið eftir athöfnina.

Hamas hefur fordæmt árásina og segir hana hafa verið gerða af sömu aðilum og réðu Mazen Faqha, meðlim samtakanna, af dögum í fyrra. Áður höfðu samtökin sakað Ísrael um morðið á Faqha. Samtökin tóku ekki vil í ásakanir Fatah og sögðu að með þeim hefðu árásarmennirnir náð markmiði sínu.

Undanfarin ár hafa sáttarviðræður átt sér stað á milli Fatah og Hamas en þær hafa litlum árangri skilað. Árásin í dag mun án efa erfiða þær viðræður enn frekar.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.