Erlent

Sprenging við bílalest forsætisráðherra Palestínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Rami Hamdallah, forsætisráðherra Palestínu, eftir árásina.
Rami Hamdallah, forsætisráðherra Palestínu, eftir árásina. Vísir/AFP
Sprenging varð við bílalest Rami Hamdallah, forsætisráðherra Palestínu þar sem hann heimsótti Gaza í dag. Samkvæmt heimildum AFP fréttaveitunnar var einnig skotið á bílalestina. Ráðherrann sakaði ekki en sjö særðust lítillega. Fatah-hreyfingin, sem Hamdallah tilheyrir, hefur sakaða Hamas, sem ráða ríkjum á Gaza, um að hafa reynt að ráða ráðherrann af dögum.



Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en íslamistar sem eru andvígir Hamas eru einnig með starfsemi á Gaza. Innanríkisráðuneyti Hamas segir að rannsókn sé hafin og þrír hafi verið handteknir.

Eftir árásina tók Hamdallah þátt í opnun skolphreinsistöð á Gaza en hann yfirgaf svæðið eftir athöfnina.

Hamas hefur fordæmt árásina og segir hana hafa verið gerða af sömu aðilum og réðu Mazen Faqha, meðlim samtakanna, af dögum í fyrra. Áður höfðu samtökin sakað Ísrael um morðið á Faqha. Samtökin tóku ekki vil í ásakanir Fatah og sögðu að með þeim hefðu árásarmennirnir náð markmiði sínu.

Undanfarin ár hafa sáttarviðræður átt sér stað á milli Fatah og Hamas en þær hafa litlum árangri skilað. Árásin í dag mun án efa erfiða þær viðræður enn frekar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×