Innlent

Hlustendur Útvarps Sögu vilja ekki reka séra Davíð Þór

Jakob Bjarnar skrifar
Séra Davíð Þór á meira inni hjá hlustendum Útvarps Sögu en margur gat séð fyrir.
Séra Davíð Þór á meira inni hjá hlustendum Útvarps Sögu en margur gat séð fyrir.
Fyrir liggur að afgerandi meirihluti hlustenda Útvarps Sögu vill ekki að séra Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, verði rekinn úr starfi.

Veruleg ólga hefur verið meðal stjórnenda Útvarps Sögu, þeirra Arnþrúðar Karlsdóttur útvarpsstjóra og Péturs Gunnlaugssonar helstu raddar stöðvarinnar, vegna kveðskapar Séra Davíðs Þórs. Vísurnar eru heldur harkalegar og í einni þeirri er spjótum beint að Útvarpi Sögu.

Arnþrúður og þá ekki síður Pétur hafa tekið þessu afar óstinnt upp og krafið Agnesi M. Sigurðardóttur, sem er biskup yfir Íslandi, svara. Þeim finnst ekki búandi við það að svo illyrmislegur klerkur, að þeirra mati, þrífist innan vébanda kirkjunnar.

Í gær var svo efnt sérstaklega til skoðanakönnunar meðal hlustenda og spurt: „Á að reka séra Davíð Þór Jónsson sóknarprest í Laugarneskirkju úr starfi?“ (Í fyrstu útgáfunni var reyndar talað um „sýra Davíð Þór“). Niðurstaðan kann að koma á óvart því tæp 60 prósent hlustenda Útvarps Sögu eru þeirrar skoðunar að ekki beri að reka séra Davíð en tæp 39 prósent telja að grípa eigi til þess. Tæp tvö prósent kjósenda lýstu sig svo hlutlaus gagnvart þessu mikla álitaefni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×