Erlent

Trump sparkar utanríkisráðherra sínum

Kjartan Kjartansson skrifar
Tillerson var forstjóri ExxonMobile áður en hann féllst á að taka við embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn Trump.
Tillerson var forstjóri ExxonMobile áður en hann féllst á að taka við embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn Trump. Vísir/EPA

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur rekið Rex Tillerson, utanríkisráðherra sinn. Mike Pompeo, forstjóri leyniþjónustunnar CIA, tekur við embættinu. Utanríkisráðuneytið segir brottreksturinn hafa komið Tillerson á óvart og að hann hafi komist að því þegar forsetinn tísti um að Tillerson væri rekinn.

Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, segir að Trump hafi beðið Tillerson um að stíga til hliðar, að því er CNN-fréttastöðin hefur eftir henni. Trump tísti um ákvörðunina og sagði að Gina Haspel, aðstoðarforstjóri CIA, taki við af Pompeo. Hún yrði fyrsta konan til að stýra CIA verði skipun hennar staðfest í þinginu.

Í yfirlýsingu hvetur Trump Bandaríkjaþing til þess að staðfesta tilnefningu Pompeo hratt. Hann eigi að halda áfram að endurreisa stöðu Bandaríkjanna í heiminum, styrkja bandalög, taka á andstæðingum og að vinna að afkjarnorkuvæðingu Kóreuskaga.

Þakkar forsetinn Tillerson fyrir störf sín og segir að hann hafi áorkað miklu á fjórtán mánuðum í embætti.

Stormasamt samband

Washington Post segir að Trump hafi beðið Tillerson um að víkja á föstudag. Þá var Tillerson á ferðalagi í Afríku en sneri skyndilega heim til Washington-borgar í gær. Þá höfðu fjölmiðlar greint frá því að veikindi gætu verið orsök þess.

Blaðið hefur eftir embættismönnum að Trump hafi talið mikilvægt að skipta um utanríkisráðherra í aðdraganda boðaðs fundar hans með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, og samningaviðræðna um fríverslunarsamninga.

Samband Trump og Tillerson hefur verið nokkuð stormasamt. Mikla athygli vakti þegar fjölmiðlar greindu frá því að Tillerson hefði kallað Trump „fávita“ eftir tilraun hans og fleiri ráðherra til þess að upplýsa forsetann um utanríkis- og varnarmál í fyrra. Tillerson neitaði því aldrei beint að hafa látið ummælin falla.

Í kjölfarið stakk Trump upp á því að hann og Tillerson myndi taka greindarvísitölupróf. Hann væri sigurviss í þeirri keppni.

Pompeo var fulltrúadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins þegar Trump tilnefndi hann sem forstjóra leyniþjónustunnar í fyrra. Hann var fyrst kjörinn á þing fyrir Kansas-ríki árið 2011 og var hluti af bylgju frambjóðenda róttæku Teboðshreyfingarinnar sem ýtti Repúblikanaflokknum lengra til hægri á þeim árum.


Hefur ekki rætt við Trump

Tillerson hefur ekki rætt við Trump og veit ekki hver ástæðan fyrir brottrekstri hans er, samkvæmt talsmanni hans. Brottrekstur hans kom honum á óvart. Tillerson segist þakklátur fyrir að hafa fengið að þjóna en hann ætlaði sér að sinna starfi sínu til enda.

Trump segist hafa „tekið ákvörðunina sjálfur“ og að Tillerson verði mun ánægðari núna.

Blaðamaður AP sem var í áðurnefndri flugvél með ráðherranum fyrrverandi segir að ekkert útlit hafi verið fyrir að víkja ætti Tillerson úr starfi fyrir rúmum fjórum tímum síðan.


Tengdar fréttir

Segja að ekki standi til að reka Tillerson

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segist hafa verið fullvissað um það frá skrifstofu Bandaríkjaforseta að ekki standi til að reka utanríkisráðherrann Rex Tillerson.

Trump vill losa sig við Tillerson

Forsetinn er sagður hafa það í hyggju að losa sig við utanríkisráðherrann Rex Tillerson. Þeir eiga ekki skap saman og eru skoðanir þeirra í utanríkisstefnu ósamræmdar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.