Enski boltinn

Hafa þurft að fresta 23 leikjum hjá sama liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty

Oft þarf að fresta leikjum á Íslandi vegna veðurs en aldrei hefur þá skapast eins slæmt ástand og hjá einu I-deildarliði í enska fótboltanum.

Enska fótboltaliðið 1874 Northwich hefur nefnilega nóg að gera á næstunni þökk sé þróun mála á tímabilinu til þessa.

Það hefur nefnilega alls þurft að fresta 23 leikjum liðsins á tímabilinu en 1874 Northwich spilar í North West Counties deildinni í enska utandeildafótboltanum.„Við þurfum núna að klára 27 leiki á átta dögum. Við erum líka ennþá inni í þremur bikarkeppnum og þetta gætu því orðið 32 leikir,“ sagði Mark Riding, stjóri liðsins.

1874 Northwich spilar í I-deild enska boltans en liðið lék einnig ellefu leiki í enska bikarnum á leiktíðinni. Þeir duttu loks út úr þriðju umferð undankeppninnar eftir endurtekinn leik á móti Ossett Town.

Nú síðast var leik liðsins á móti AFC Darwen frestað um síðustu helgi. 23 frestanir og tímabilið ekki hálfnað, leikjalega séð.

Liðið þarf núna að spila þrjá leiki á viku til loka tímabilsins því enska knattspyrnusambandið leyfir ekki að lengja tímabilið þrátt fyrir allar þessar frestanir.

Fyrir tveimur árum þurfti lið að spila tvo leiki á sama degi til að klára leiki sína í tíma og 1874 Northwich gæti einnig lent í þeirri stöðu.

Orðið leikjaálag öðlast nýja merkingu hjá flestum eftir að hafa skoðað nánar leikjadagskrá 1874 Northwich á næstunni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.