Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2: Gift fullorðnum frænda sínum 11 ára gömul

Hersir Aron Ólafsson skrifar

Hin tvítuga Najmo Fiyasko hefur búið á Íslandi undanfarin fjögur ár, gengur hér í skóla og er með háleit framtíðarmarkmið. Hún stýrir vinsælli Youtube-rás, er með tugþúsundir fylgjenda á Facebook og veitir konum í upprunalandi sínu, Sómalíu, innblástur í máli og mynd. Áður en hún kom hingað átti Najmo hins vegar ekki sjö dagana sæla. Þannig var hún 11 ára gömul flutt út í sveit í Sómalíu þar sem henni var gert að giftast 32 ára gömlum frænda sínum, en enn í dag þykir henni erfitt að tala um þann tíma. Hún ákvað hins vegar að flýja og leita sér betra lífs, en þær áætlanir leiddu hana vítt og breitt um heiminn þar sem hún þurfti sífellt að berjast fyrir tilvist sinni.

Á leið sinni til fyrirheitna landsins Kanada endaði Najmo svo á Íslandi, þar sem hún hefur verið síðan. Í dag notar hún netmiðla til að dreifa hugleiðingum sínum um kvenréttindi í Sómalíu og berst af ákefð gegn barnabrúðkaupum, sem enn eru gríðarlega algeng þrátt fyrir að hafa fækkað talsvert á undanförnum árum.

Najmo segir það ríkt í menningu Sómala að konur tali ekki um ofbeldi og misnotkun sem þær verða fyrir. Þannig séu slíkar frásagnir taldar til þess fallnar að kalla skömm yfir fjölskylduna. Þúsundir stúlkna hafi gengið í gegnum nákvæmlega sömu reynslu og hún, en segi ekkert, heldur geri einfaldlega það sem þær þurfa til að lifa af. Þetta verði að breytast. Sómalskar stúlkur þurfi að fá rödd og tækifæri til að segja frá - og vonandi breyta samfélaginu í leiðinni.

Najmo flytur erindi á aðalfundi Íslandsdeildar Amnesty International á morgun, en viðtal við hana verður birt í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Lengri útgáfa viðtalsins verður svo aðgengileg á Vísi.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.