Erlent

Aðstoðarmanni Trump fylgt út úr Hvíta húsinu, grunaður um fjárglæpi

Kjartan Kjartansson skrifar
McEntee gerðist persónulegur aðstoðarmaður Trump strax á fyrstu mánuðum forsetaframboðs hans.
McEntee gerðist persónulegur aðstoðarmaður Trump strax á fyrstu mánuðum forsetaframboðs hans. Vísir/AFP

Persónulegur aðstoðarmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta var rekinn í dag vegna þess að hann er til rannsóknar vegna alvarlegra fjárglæpa. Honum var fylgt út úr Hvíta húsinu í dag en var á sama tíma ráðinn til að vinna fyrir forsetaframboð Trump árið 2020.

John McEntee hefur unnið fyrir Trump frá því í kosningabaráttunni sem persónulegur aðstoðarmaður. Hann hefur haldið því starfi áfram í Hvíta húsinu. Wall Street Journal sagði fyrst frá brotthvarfi McEntee.

Heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna er sagt rannsaka meint brot hans sem séu alvarleg. Hvíta húsið vildi ekki tjá sig um ástæðu uppsagnarinnar í dag, að því er segir í frétt CNN-fréttastöðvarinnar.

Tilkynnt var um ráðningu McEntee sem ráðgjafa framboðs Trump í dag.

Fjölda náinna bandamanna horfinn á braut
McEntee er enn einn náni samstarfsmaður Trump sem hverfur á braut á skömmum tíma. Keith Schiller, lífvörður Trump til fjölda ára, hætti í haust. Aðeins tvær vikur eru liðnar frá því að Hope Hicks, samskiptastjóri Hvíta hússins, hætti en samband hennar og Trump hefur verið afar náið frá því í kosningabaráttunni.

Fjöldi starfsmanna Hvíta hússins hefur þurft að láta af störfum vegna þess að umsóknir þeirra um öryggisheimildir um aðgang að trúnaðargögnum hafa ekki verið samþykktar. Jared Kushner, tengdasonur Trump og hans helsti ráðgjafi, missti þannig aðgang að trúnaðargögnum sem hann hafði áður.

Þá rak Trump Rex Tillerson, utanríkisráðherra sinn, í dag. Mike Pompeo, forstjóri leyniþjónustunnar CIA, á að taka við embættinu í hans stað.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.