Innlent

Missti föður sinn og var gefin fullorðnum manni: „Ég grét svo mikið“

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Najmo Fiyasko er fædd árið 1998. Hún hefur búið hér á landi í um fjögur ár, en leið hennar hingað var löng og þyrnum stráð. Þrautaganga hennar hófst þegar faðir hennar dó og hún var send í sveit til 32 ára gamals manns sem hún átti að giftast, sjálf aðeins 11 ára gömul.

Hún segir tímann þar hafa verið ólýsanlega erfiðan, þar sem hún grét og syrgði bæði föður sinn og þær vonir sem hún hafði borið til framtíðarinnar.

Hún ákvað loks að flýja og upphófst langt og strangt ferðalag sem náði meðal annars gegnum eyðimörkina til Súdan og svo Líbýu, sigling til Möltu þar sem vinkona hennar lét lífið, lífsbarátta í fangelsum og flóttamannabúðum og svo mætti lengi telja. Hún endaði svo á Íslandi á leið sinni til fyrirheitna landsins Kanada, tæplega 16 ára gömul, og hefur verið hér síðan.

Í dag stundar hún hins vegar nám við framhaldsskóla og rekur vinsæla Facebook síðu og Youtube rás þar sem hún talar til kvenna í Sómalíu, berst fyrir umbótum og talar gegn barnabrúðkaupum, sem enn eru gríðarlega algeng þrátt fyrir þeim hafi fækkað talsvert undanfarin ár. Þá hefur hún enn fremur flutt fyrirlestra og erindi, en hún verður aðalfyrirlesari á aðalfundi Íslandsdeildar Amnesty á morgun.

Ítarlegt viðtal við Najmo Fiyasko er að finna í spilaranum hér að ofan. Þar ræðir hún þrautagöngu sína í Sómalíu, flóttann sem leiddi hana að lokum til Íslands og baráttu sína fyrir samfélagsbreytingum, en hún segir að nú sé tími til kominn að konur taki við stjórnartaumunum í Afríku. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×