Innlent

Berjast gegn „eitraðri karlmennsku“ með reynslusögum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þorsteinn V. Einarsson er forsprakki byltingarinnar sem vakið hefur athygli undir myllumerkinu #karlmennskan.
Þorsteinn V. Einarsson er forsprakki byltingarinnar sem vakið hefur athygli undir myllumerkinu #karlmennskan. Mynd/Samsett
Samfélagsmiðlabylting undir myllumerkinu #karlmennskan hefur vakið mikla athygli á vefnum í dag. Að baki átakinu standa karlmenn sem vilja uppræta „eitraða karlmennsku“ og varpa ljósi á skaðlegar staðalímyndir, sem margar eru samtvinnaðar hugmyndum um karlmennsku.

Þorsteinn V. Einarsson hrinti byltingunni af stað í dag en hann segir Sóleyju Tómasdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa, hafa laumað hugmyndinni að sér í morgun. Þorsteinn kveðst hafa gripið boltann á lofti og hvatt karlmenn til að deila sögum af téðri „eitraðri karlmennsku“ á samfélagsmiðlum.

„Deilum sögum um reynslu okkar þar sem við fundum að eitthvað kom í veg fyrir að við gerðum ekki það sem við raunverulega vildum eða vildum ekki. Dæmi um norm eða viðmið sem hindruðu okkur,“ skrifaði Þorsteinn í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í dag.

Konur yfir sig hrifnar en karlar örlítið feimnari

Þorsteinn segir í samtali við Vísi að viðbrögðin við átakinu hafi verið góð. Hann tekur þó eftir greinilegum mun á viðbrögðum kynjanna og segir konur taka sérstaklega vel í boðskapinn. Karlar virðast hins vegar örlítið feimnari við að lýsa opinberlega yfir stuðningi við átakið og taka þátt í því.

„Og það er partur af því hversu mikilvægt það er að fjalla um þetta, nefnilega að viðbrögðin hafa verið ótrúlega góð og sterk hjá konum. Konur hafa tekið þessu fagnandi en það hefur verið aðeins minna um viðbrögð hjá kynbræðrum mínum,“ segir Þorsteinn.

Ávarpa kynjaðan veruleika

Að sögn Þorsteins hefur þó mikillar ánægju og þakklætis gætt hjá karlmönnum vegna #karlmennskunnar og honum hafi borist nokkur fjöldi einkaskilaboða.

„Ég hef fengið nokkur skilaboð þar sem karlmenn hafa sagst vera ánægðir með þetta og þakkað mér fyrir en hafa ekki verið tilbúnir til þess að deila sínum sögum. Þetta undirstrikar í raun hver staðan er,“ segir Þorsteinn en ítrekar að hann sé þó ekki að gera lítið úr viðbrögðum karlanna. Þau endurspegli hins vegar hversu þarft átak af þessu tagi er.

„Það má ekki vera þannig að strákar upplifi t.d. #MeToo-byltinguna sem persónulega árás á sig, vegna þess að hún er það alls ekki. Hún er árás á þetta kerfisbundna ójafnrétti sem við viðhöldum í afstöðu- og andvaraleysi okkar. Við viljum ávarpa þennan kynjaða veruleika.“

Hér að neðan má sjá nokkrar færslur karlmanna undir myllumerkinu #karlmennskan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×