Innlent

Litríkur ferill Sverris Hermannssonar

Höskuldur Kári Schram skrifar

Sverrir Hermannsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, er látinn 88 ára að aldri. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Mörk á aðfaranótt mánudags. 

Sverrir fæddist á Svalbarði í Ögurvík árið 1930 en foreldrar hans voru Hermann Hermannsson útvegsbóndi og Salóme Rannveig Gunnarsdóttir húsmóðir. Sverrir var með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri og viðskiptafræðipróf frá Háskóla Íslands. 

Sverrir gegndi þingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn í rúm tuttugu ár en hann settist fyrst á þing árið 1964. Hann var iðnaðarráðherra á árunum 1983 til 1985 í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og síðar menntamálaráðherra. 

Hann var bankastjóri Landsbankans í tíu ár en hætti árið 1998 í kjölfar deilna innan stjórnar bankans. Sama ár stofnaði hann Frjálslynda flokkinn og gegndi embætti formanns flokksins í fimm ár og var þingmaður flokksins á árunum 1999 til 2003.

Sverrir kvæntist Grétu Lind Kristjánsdóttur árið 1953 en hún lést árið 2009. Þau eignuðust fimm börn og eina fósturdóttur. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.