Viðskipti innlent

Eignir Íslendinga erlendis drógust saman

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Íslendingar hafa ekki átt jafn lítið af fjármunaeignum, í krónum talið, á erlendri grundu frá árinu 2005.
Íslendingar hafa ekki átt jafn lítið af fjármunaeignum, í krónum talið, á erlendri grundu frá árinu 2005. Vísir/Stefán
Íslendingar áttu 684 milljarða króna í beinni fjármunaeign erlendis í lok árs 2016 samkvæmt nýjum tölum frá Seðlabanka Íslands. Til samanburðar var bein fjármunaeign Íslendinga erlendis 990 milljarðar króna í árslok 2015 og nam samdrátturinn á árinu 2016 því ríflega 30 prósentum. Telja má sennilegt að mikil gengisstyrking krónunnar skýri samdráttinn að mestu leyti.

Íslendingar hafa ekki átt jafn lítið af fjármunaeignum, í krónum talið, á erlendri grundu frá árinu 2005.

Samkvæmt tölum Seðlabankans áttu útlendingar um 1.110 milljarða króna í beinni fjármunaeign hér á landi í lok árs 2016 borið saman við 1.017 milljarða í árslok 2015.

Sem fyrr eiga Íslendingar mest af fjármunaeignum í Hollandi eða 286 milljarða króna í lok árs 2016. Bein fjármunaeign Íslendinga í Bretlandi var 121 milljarður á sama tíma og dróst hún verulega saman á milli ára, en hún nam 212 milljörðum króna í árslok 2015. Auk þess áttu Íslendingar fjármunaeignir upp á 59 milljarða á Kýpur og 33 milljarða í Lúxemborg í lok árs 2016, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Eignarhald útlendinga á fjármunaeignum hér á landi var að langmestu leyti í gegnum Lúxemborg í lok 2016. Voru þá eignir upp á 921 milljarð króna skráðar í eigu lúxemborgskra aðila borið saman við 809 milljarða í lok árs 2015. Um 120 milljarða króna eignir hér á landi voru í árslok 2016 skráðar í eigu hollenskra aðila og 87 milljarða eignir í eigu svissneskra aðila.

Þá var bein fjármunaeign Bandaríkjamanna hér á landi neikvæð um 319 milljarða króna í lok árs 2016 en hún hefur verið neikvæð allt frá árinu 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×