Erlent

Rússar hyggjast ekki svara Bretum nema þeir fái sýni af eitrinu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sakaði Rússa í upphafi vikunnar um að hafa komið að árásinni.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sakaði Rússa í upphafi vikunnar um að hafa komið að árásinni. VÍSIR/AFP

Yfirvöld í Kreml svara ekki ásökunum Breta um notkun taugaeiturs á breskri grund fyrr en þau fá sýni af efninu sem notað var. Þetta kom fram í tísti frá rússneska sendiráðinu í Bretlandi í gær.

Bretar höfðu gefið Rússum frest til dagsloka í gær til að gefa trúverðugar skýringar á því að eitrið fannst í breska bænum Salisbury fyrir tíu dögum. Atvikið beindist að rússneskum gagnnjósnara á eftirlaunum, Sergei Skripal, og dóttur hans. Engar útskýringar frá Rússum lágu fyrir er Fréttablaðið fór í prentun. Breska þingið ræðir málið í dag.

„Án [könnunar Rússa á efninu] er ekkert vit í staðhæfingum frá London. Atvikið virðist vera enn önnur óheiðarleg tilraun af hálfu breskra yfirvalda til að varpa rýrð á Rússland,“ segir í öðru tísti sendiráðsins.

Í gær sagði Amber Rudd, innanríkisráðherra Breta, að fjórtán dauðsföll á breskri grund verði rannsökuð á nýjan leik vegna mögulegra tengsla við Rússland. Ákvörðunin var tekin eftir að fréttastofa BuzzFeed gerði opinbera tveggja ára rannsóknarvinnu sem tengdi yfirvöld í Rússlandi við dauðsföllin.

Í fyrrakvöld fannst Nikolai Glush­kov látinn á heimili sínu. Hann var vinur Boris Berezovsky, stjórnarandstæðings og auðjöfurs. Andlát Berezovsky er eitt af málunum fjórtán sem verða rannsökuð á nýjan leik. Ekki liggur fyrir hvort mál Glushkov og Skripal tengjast.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.