Erlent

Rússar hyggjast ekki svara Bretum nema þeir fái sýni af eitrinu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sakaði Rússa í upphafi vikunnar um að hafa komið að árásinni.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sakaði Rússa í upphafi vikunnar um að hafa komið að árásinni. VÍSIR/AFP
Yfirvöld í Kreml svara ekki ásökunum Breta um notkun taugaeiturs á breskri grund fyrr en þau fá sýni af efninu sem notað var. Þetta kom fram í tísti frá rússneska sendiráðinu í Bretlandi í gær.

Bretar höfðu gefið Rússum frest til dagsloka í gær til að gefa trúverðugar skýringar á því að eitrið fannst í breska bænum Salisbury fyrir tíu dögum. Atvikið beindist að rússneskum gagnnjósnara á eftirlaunum, Sergei Skripal, og dóttur hans. Engar útskýringar frá Rússum lágu fyrir er Fréttablaðið fór í prentun. Breska þingið ræðir málið í dag.

„Án [könnunar Rússa á efninu] er ekkert vit í staðhæfingum frá London. Atvikið virðist vera enn önnur óheiðarleg tilraun af hálfu breskra yfirvalda til að varpa rýrð á Rússland,“ segir í öðru tísti sendiráðsins.

Í gær sagði Amber Rudd, innanríkisráðherra Breta, að fjórtán dauðsföll á breskri grund verði rannsökuð á nýjan leik vegna mögulegra tengsla við Rússland. Ákvörðunin var tekin eftir að fréttastofa BuzzFeed gerði opinbera tveggja ára rannsóknarvinnu sem tengdi yfirvöld í Rússlandi við dauðsföllin.

Í fyrrakvöld fannst Nikolai Glush­kov látinn á heimili sínu. Hann var vinur Boris Berezovsky, stjórnarandstæðings og auðjöfurs. Andlát Berezovsky er eitt af málunum fjórtán sem verða rannsökuð á nýjan leik. Ekki liggur fyrir hvort mál Glushkov og Skripal tengjast.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×