Innlent

Gular viðvaranir í gildi en hlýnar smátt og smátt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vindaspá Veðurstofu Íslands fyrir hádegið í dag.
Vindaspá Veðurstofu Íslands fyrir hádegið í dag. veðurstofa íslands

Gular viðvaranir eru í gildi á Suður- og Suðausturlandi vegna storms. Á vef Veðurstofu Íslands segir að undir Mýrdals- og Eyjafjallajökli sem og vestan- og sunnan undir Öræfajökli megi búast við snörpum vindhviðum sem gætu farið um og yfir 30 metra á sekúndu.

Eru vegfarendur á þessum slóðum beðnir um að sýna aðgát, sérstaklega þeir sem eru á bílum sem taka á sig mikinn vind, til dæmis rútur.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir annars að nú hlýni smátt og smátt næsta sólarhringinn. Fer hiti að öllum líkindum yfir frostmark víðast hvar á landinu í dag og á morgun með röku lofti og hlýrri suðaustan átt.

„Búast má við talsverðri úrkomu suðaustan og austanlands. Áfram snjóar í fjöll en rignir á láglendi. Þá er einnig er útlit fyrir að rigni suðvestantil, og ætti svifryksmengunin þá loks að dvína í höfuðborginni.

Svipað útlit er næstu daga og fram yfir helgi, þó dragi heldur úr úrkomu um helgina,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur í dag og næstu daga:
Austan og síðar suðaustan 8-15 m/s en 15-23 og snarpar hviður syðst á landinu og í Öræfum. Lægir heldur á Norðvesturlandi á morgun. Víða rigning með köflum en slydda eða snjókoma í fyrstu. Samfelld úrkoma suðaustanlands og á Austfjörðum, rigning á láglendi en slydda eða snjókoma til fjalla. Hiti 1 til 6 stig í dag en 2 til 8 stig á morgun, mildast sunnanlands.

Á fimmtudag:
Suðaustan 8-15 m/s en 5-10 á norðvestanverðu landinu. Skýjað og víða rigning, talsverð suðaustanlands og á Austfjörðum en úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti 2 til 8 stig, mildast syðst.

Á föstudag og laugardag:
Suðaustan 8-13 og dálítil væta, en hægari vindur og þurrt um landið norðanvert. Áfram milt í veðri.

Á sunnudag, mánudag og þriðjudag:
Útlit allhvassa sunnanátt með rigningu sunnan- og vestanlands, en léttskýjað á Norður- og Austurlandi. Hiti 2 til 7 stig, en frystir að nætulagi fyrir norðan og austan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.