Enski boltinn

Sjáðu blaðamannafund Mourinho sem gerði stuðningsmenn Manchester United brjálaða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Vísir/Getty
Jose Mourinho mætti á blaðamannafund í gærkvöldi stuttu eftir að horfa á sína menn detta út fyrir spænska liðinu Sevilla í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Sevilla var betra liðið í báðum leikjum en það voru tvö mörk varamannsins Ben Yedder með fjögurra mínútna millibili í seinni hálfleik sem afgreiddu einvígið á Old Trafford í gærkvöldi.

Ummæli Jose Mourinho á umræddum blaðamannafundi á Old Trafford í gær hafa reitt margan stuðningsmann Manchester United til reiði.

Það var ekki nóg með að hann bjóði upp á afar varfærnislega og litlausa spilamennsku við flest öll tækifæri þá var Portúgalinn núna farinn að mikla sjálfan sig og gera lítið úr félaginu á blaðamananfundinum.

„Ég hef setið tvisvar sinnum í þessum stól eftir að hafa slegið Manchester United út úr Meistaradeildinni, fyrst með Porto og svo með Real Madrid. Þetta er því ekkert nýtt fyrir þetta fótboltafélag,“ sagði Jose Mourinho.

„Ég vil ekki búa til of mikla dramatík því við höfum ekki tíma fyrir slíkt. Við eigum leik á laugardaginn og getum því ekki verið leiðir í meira en 24 tíma. Svona er fótboltinn og þetta er enginn heimsendir,“ sagði Mourinho.

Það má sjá allan blaðamannafundinn með Jose Mourinho hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×