Handbolti

Guðjón Valur fær frí af fjölskylduástæðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/EPA
Guðjón Valur Sigurðsson, markahæsti landsliðsmaður sögunnar og langmarkahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi, var ekki valinn í fyrsta landsliðshóp Guðmundar Guðmundssonar sem var tilkynntur í dag.

Guðjón Valur hefur verið aðalfyrirliði íslenska landsliðsins undanfarin sex ár eða síðan að Guðmundur Guðmundsson hætti með landsliðið eftir Ólympíuleikana 2012.

Guðmundur Guðmundsson var spurður út í ákvörðun sína á blaðamannfundi í dag.

„Guðjón fær frí af fjölskylduástæðum. Hann átti tækifæri til að fylgja dóttur sinni til Bandaríkjanna þar sem hún er að skoða háskóla. Ég fæ því tækifæri til að skoða aðra leikmenn í hans stöðu,“ sagði Guðmundur á blaðamannafundi í dag.

Það mátti líka heyra á landsliðsþjálfaranum að Guðmundur ætli að kalla aftur á Guðjón Val í næsta verkefni á eftir þessu.  Þetta eru því engin endalok í landsliðinu hjá þessum frábæra leikmanni.

Guðjón Valur lék sinn 347. landsleik í síðasta leik íslenska liðsins á EM í Króatíu en alls hefur hann skorað 1816 mörk fyrir íslenska landsliðið eða 5,23 mörk að meðaltali í leik. Guðjón Valur bætti markamet Ungverjans Péter Kovács í janúar (1797 mörk) og varð sá leikmaður sem hefur skorað flest mörk fyrir handboltalandslið í heiminum.

Guðjón Valur hefur tekið þátt í öllum stórmótum íslenska landsliðsins frá og með EM 2000 en Evrópumótið í Króatíu var hans 21. stórmót á landsliðsferlinum.

Guðjón Valur er einn af sjö leikmönnum úr EM-hópnum í janúar sem eru ekki með í fyrsta landsliðshóp Guðmundar Guðmundssonar. Af hinum sex eru fjórir meiddir og tveir ekki valið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×