Magnaður Messi kláraði Chelsea | Sjáðu mörkin

Anton Ingi Leifsson skrifar

Lionel Messi var magnaður í kvöld og var ein aðal ástæða þess að Barcelona er komið í átta liða úrslit Meistaradelildar eftir 3-0 sigur á Chelsea í síðari leik liðanna.

Það voru ekki liðnar nema rúmlega tvær mínútur þegar fyrsta markið kom. Boltinn hrökk þá til Messi eftir darraðadans, en hann var í afar þröngu færi. Hann kom hins vegar boltanum í gegnum klofið á Thibaut Courtois og Barcelona komið yfir.

Chelsea tók svo við sér og var að spila ágætlega án þess að skapa sér mikið af færum, en á 20. mínútu dró til tíðinda. Chelsea tapaði þá boltanum klaufalega og Börsungar geystust fram, Messi lagði boltann á Ousmane Dembele sem kláraði færið frábærlega og staðan orðin 2-0.

Því þurftu ensku meistararnir að skora að minnsta kosti tvisvar, en Barcelona var 2-0 yfir í leikhléi. Þegar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik féll Marcus Alonso í teignum og gestirnir vildu víti, en ekkert dæmt.

Eftir rúman klukkutíma kláraði svo Lionel Messi leikinn eftir að Luis Suarez lagði boltann á hann, en aftur setti þessi magnaði fótboltamaður boltann á milli fóta Courtois í markinu. Setja má spurningarmerki við Courtois í fyrsta og þriðja marki Barcelona, en þetta var 100. mark Messi í Meistaradeildinni.

Ekki urðu mörkin fleiri og Barcelona er því komið í átta liða úrslitin ásamt Bayern Munchen, Liverpool, Man. City, Juventus, Real Madrid, Roma og Sevilla.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.