Erlent

Bretar ætla að reka 23 rússneska njósnara úr landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að erindrekarnir 23 séu í raun njósnarar og þeir hafi viku til að yfirgefa Bretland.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að erindrekarnir 23 séu í raun njósnarar og þeir hafi viku til að yfirgefa Bretland. Vísir/AFP

Yfirvöld Bretlands hafa ákveðið að reka 23 rússneska erindreka úr landi. Það var gert eftir að Rússar neituðu að útskýra hvernig taugaeitur sem þróað var í Rússlandi var notað til þess að reyna að myrða fyrrverandi njósnarann Sergei Skripal í Bretlandi. Skripal og dóttir hans liggja þungt haldin á sjúkrahúsi og urðu fleiri fyrir áhrifum eitursins.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að erindrekarnir 23 séu í raun njósnarar og þeir hafi viku til að yfirgefa Bretland. Hún segir Rússa hafa ekki veitt nokkra skýringu á hvernig taugaeitrið hafi verið notað í Bretlandi og hafi nálgast málið af „kaldhæðni, vanvirðingu og andstöðu“.

Yfirvöld Bretlands segja taugaeitrið hafa verið framleitt í Rússlandi. Eitrið er sagt tilheyra eiturflokknum Novichok en ekki hefur verið gefið út nánar hvaða eitur var notað.

Vísir/GraphicNews

Rússar þvertaka fyrir að hafa komið að morðtilrauninni og hafa farið fram á að fá aðgang að sönnunargögnum Breta.

Auk þess að vísa Rússunum úr landi ætla Bretar að auka eftirlit með einkaflugum Rússa til Bretlands og tollgæslu gagnvart vörum frá Rússlandi. Að frysta eigur rússneska ríkisins sem sönnunargögn benda til að hafa verið notaðar til að ógna lífum eða eigum Breta og íbúa Bretlands. Þar að auki munu ráðherrar og konungsfjölskylda Bretlands sniðganga HM í sumar.

Sergei Skripal var fangelsaður í Rússlandi árið 2006 fyrir að hafa útvegað leyniþjónustu Bretlands nöfn útsendara Rússa í Evrópu. Hann var frelsaður árið 2010 þegar Bandaríkin og Rússland skiptust á njósnurum sem höfðu verið handsamaðir. Rússar slepptu fjórum njósnurum og Bandaríkin tíu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem eitur er byrlað fyrir Rússneskum aðila í Bretlandi og gruna yfirvöld Bretlands þegar að yfirvöld Rússlands hafi komið að árásinni.

Feðginin Sergei og Yulia Skripal urðu fyrir eiturefnaárás á sunnudaginn 4. mars og liggja enn þungt haldin á sjúkrahúsi. Lögregluþjónninn Nick Bailey, sem veiktist er hann reyndi að koma feðginunum til bjargar, er kominn til meðvitundar en ástand hans er enn alvarlegt.

Sendiráð Rússlands í Bretlandi segir aðgerðir Breta vera óvinveittar, óásættanlegar, óréttmætar og skammsýnar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.