Innlent

Vilja skoða hvort leggja eigi niður samræmd próf

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nemendur við próflestur á Þjóðarbókhlöðunni.
Nemendur við próflestur á Þjóðarbókhlöðunni. Vísir/Vilhelm

Meirihluti skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur hefur lagt fram tillögu um að fyrirkomulag samræmdra prófa verði tekið til endurskoðunar og komið verði af stað vinnu við endurmat. Þar verði skoðað hvort tilefni sé til að leggja samræmdu prófin af og nýta önnur próf og skimanir til að þjóna sambærilegum markmiðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skóla- og frístundaráði.

Í tillögunni, sem skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata standa að, segir að ráðið feli sviðsstjóra að setja í gang vinnu við að endurmeta gildi og gagnsemi samræmdra prófa í grunnskólum Reykjavíkur.

Þá verði skoðað hvernig niðurstöður samræmdra prófa hafa verið nýttar á undanförnum árum, hvaða breytingar þyrfti að gera á framkvæmdinni en jafnframt hvort tilefni er til að leggja þau af og nýta önnur próf og skimanir til að þjóna sambærilegum markmiðum.

„Meirihlutinn leggur því fram tillögu um að slík skoðun fari strax af stað þar sem allir kostir verði á borðinu, þar með talið að leggja af samræmd próf í núverandi mynd en nýta önnur mælitæki til að þjóna markmiðum um að veita upplýsingar um stöðu nemenda.  Ákvörðun um að leggja af samræmd próf myndi vissulega kalla á lagabreytingar en grunnskólalög eru til að þjóna nemendum og skólastarfi en ekki öfugt,“ segir í tilkynningu.

Í tilkynningu kemur einnig fram að leitað verði eftir viðhorfum nemenda, kennara og skólastjórnenda við vinnuna og mun niðurstaða liggja fyrir eigi síðar en 1. maí 2018.

Framkvæmd tveggja samræmdra prófa í 9. bekk mistókst í síðustu viku vegna bilunar í prófakerfi. Menntamálastofnun harmaði mjög mistökin en mikil óánægja greip um sig meðal nemenda og kennara vegna málsins.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.