Handbolti

Enn og aftur fer Stefán Rafn á kostum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Stefán hættir ekki að raða inn mörkum í Ungverjalandi.
Stefán hættir ekki að raða inn mörkum í Ungverjalandi. vísir/getty

Stefán Rafn Sigurmannsson var enn eina ferðina funheitur fyrir Pick Szeged sem vann fjórtán marka sigur, 36-22, á Ferencvaros í ungversku úrvalsdeildinni í handbolta.

Stefán Rafn var á nýjan leik valinn í íslenska landsliðið í dag þegar Guðmundur Þórður Guðmundsson opinberaði landsliðshópinn sem fer á fjögurra þjóða mót í Noregi síðar í mánuðinum.

Pick Szeged var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 17-15, en í síðari hálfleik varð þetta leikur kattarins að músinni og lokatölur 36-22. Stefán Rafn var enn og aftur frábær, en hann hefur leikið á alls oddi í vetur. Hann skoraði níu mörk í kvöld.

Szeged er tveimur stigum á eftir Veszprém í baráttunni um ungverska meistaratitilinn.

Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í Álaborg unnu þriggja marka sigur á TM Tønder, 31-28, eftir að staðan hafi verið jöfn í hálfleik, 15-15.

Arnór Atlason skoraði ekki mark úr þeim tveimur skotum sem hann skaut, en Janus Daði Smárason er enn á meiðslalistanum. Darri Aronsson, sonur Arons, var á leikmannalista Álaborgar í dag, en hann er ungur að árum.

Álaborg er í fimmta sætinu með 28 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.