Viðskipti innlent

Viljayfirlýsing undirrituð um byggingu 33 íbúða á Akranesi

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar.
Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar. Skessuhorn
Ritað var undir viljayfirlýsingu um byggingu 33 íbúða við Asparskóga á Akranesi fyrr í dag. Þeir sem rituðu undir viljayfirlýsinguna voru Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri, Björn Traustason framkvæmdastjóri Bjarg íbúðafélags, Gylfi Arnbjörnsson stjórnarformaður Bjargs og forseti ASÍ og Árni Stefán Jónsson, varaformaður stjórnar Bjargs og formaður SFR. Viðstaddir undirritunina voru embættismenn, bæjarfulltrúar Akraneskaupstaðar og Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA.

Með viljayfirlýsingunni veitir Akraneskaupstaður vilyrði um úthlutun á lóðum að Asparskógum 12, 14 og 16 til íbúðafélagsins Bjargs þar sem reisa á leiguíbúðir og einnig mun Akraneskaupstaður veita stofnframlag til uppbyggingarinnar í samræmi við ákvæði laga um almennar íbúðir nr. 52/2016.

Stofnframlag Akraneskaupstaðar til uppbyggingar er 12% af stofnvirði og getur t.d. verið í formi gatnagerðargjalda og annarra opinberra gjalda sem kaupstaðurinn hefur forræði á. Akraneskaupstaður gerir það að skilyrði fyrir veitingu stofnframlags til verkefnisins að Akraneskaupstaður hafi að jafnaði ráðstöfunarrétt að 25% íbúða samkvæmt nánara samkomulagi milli aðila. Íbúðirnar sem hér um ræðir verða allar í útleigu og tekur leiguverð þeirra mið að tekjum leigutaka. Næsta skref verður að skipa sérstaka verkefnastjórn með fulltrúum frá Bjargi og Akraneskaupstað þar sem unnið verður sameiginlega að framgangi verkefnisins m.a. um fyrirkomulag húsa, skipulag, útlit o.s.frv.

„Með undirritun yfirlýsingarinnar er stór skref stigið í að mæta íbúum Akraness með fjölgun leiguíbúða en lítið framboð hefur verið af slíkum síðastliðin ár“, er haft eftir Sævari Frey bæjarstjóra í tilkynningu um málið.. „Ég er fullur tilhlökkunar yfir verkefninu og hef mikla trú á því. Við erum hér að mæta fjölskyldum hér í bæ með nýjum leiguíbúðum á leiguverði sem tekur mið af tekjum heimilisins“, segir Sævar enn fremur.

Björn Traustason framkvæmdastjóri Bjargs lýsti yfir ánægju sinni með undirritunina og er spenntur fyrir að hefja þetta metnaðarfulla verkefni á Akranesi. Björn lýsir yfir mikilli ánægju með samstarfið við fulltrúa Akraness og hversu hratt og örugglega ferlið hefur gengið fyrir sig.

Rakel Óskarsdóttir, bæjarfulltrúi og varaformaður skipulags- og umhverfisráðs fagnaði þessum áfanga enda væri leigumarkaðurinn á Akranesi erfiður sem stendur. Þarna skapaðist tryggt leiguhúsnæði fyrir einstaklinga, ungar fjölskyldur, námsmenn o.fl. og spennandi yrði að fylgjast með uppbyggingunni. Rakel þakkaði fulltrúum Bjargs fyrir samstarfið og tók sérstaklega fram að einhugur hefði verið í bæjarstjórn um þessa ákvörðun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×