Skoðun

Í þágu hinna fáu

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Þegar valið stendur á milli sérhagsmuna fárra og hagsmuna heildarinnar er það segin saga að kjarklausir stjórnmálamenn velja fyrri kostinn. Ástæðan er efalaust sú að á meðan hagsmunir fjöldans eru léttvægir fyrir hvern og einn eru hagsmunir hinna fáu miklir og þess virði að berjast fyrir.

Gott dæmi um sérhagsmunagæslu af þessu tagi er sú ákvörðun Donalds Trump að leggja tolla á innflutt ál og stál. Rökin eru sögð þau að verja þurfi hnignandi bandarískan iðnað í samkeppni við erlendan iðnað. Störf tuga þúsunda séu í húfi. Það sem gleymist er að tollmúrarnir skaða samkeppnishæfni þeirra bandarísku fyrirtækja sem reiða sig á ódýrt, innflutt ál og stál. 140 þúsund manns starfa við stálframleiðslu í landinu en 6,5 milljónir hjá fyrirtækjum sem reiða sig á innflutt stál. Fyrir hvert nýtt starf sem tollarnir skapa í stáliðnaðinum er talið að átján önnur glatist.

Dæmi um viðlíka sérhagsmunagæslu má einnig finna hér á landi. Sama dag og Trump tilkynnti um áform sín hvöttu samtök bænda þingmenn til þess að hækka tolla á landbúnaðarvörur. Rökin eru þau sömu: að verja þurfi innlendan landbúnað fyrir erlendri samkeppni. Tollmúrinn hefur hins vegar leitt til þess að íslenskir neytendur greiða eina hæstu landbúnaðarstyrki í heimi til þess að geta keypt einhverjar dýrustu búvörur í heimi. Engu að síður eru bændur ein tekjulægsta stétt landsins.

Tollvernd getur þjónað sérhagsmunum fárra til skamms tíma en til lengri tíma þjónar hún ekki hag neins. Bandaríski stáliðnaðurinn stendur ekki betur að vígi ef alls konar framleiðsla sem reiðir sig á stál flyst úr landi. Það sama gildir um íslenskan landbúnað. Hann mun ekki blómstra á meðan hann byggir tilvist sína á verri kjörum almennings.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×