Skoðun

Einn nýr spítali, eða tveir?

Þóra Andrésdóttir skrifar
Sumir tala um að byggja háskólasjúkrahús við Hringbraut og huga svo fljótlega að öðru þjóðarsjúkrahúsi á betri stað. Þeir vilja að spítalinn sé nálægt háskólunum, og nýta gömlu byggingarnar. Varla verður labbað mikið á milli, og byggingarnar lélegar. Aðrir vilja að byggður verði betri spítali á betri stað með möguleika til stækkunar og gott aðgengi.

Velferðarráðuneytið hefur flust úr mygluðu húsi. Það er öfugsnúið að bjóða sjúklingum upp á myglaðar byggingar, hvernig er staðan á skólpi og lögnum? Starfsfólk varð veikt og flutti skrifstofur sínar í gáma.

Á Hringbrautinni er umferðarteppa á háannatíma. Þá er erfitt fyrir sjúkrabíla að komast, sekúndur geta skipt máli, líf í húfi. Ef í raun á að sameina alla vinnustaðina verður umferðin ekki minni þegar bílar frá 17 vinnustöðum Landspítalans koma saman. Kemst allt fyrir á þessum reit? Ef ekki, hver er þá hagræðingin? Þá er betra að byggja nýja þjóðarsjúkrahúsið þar sem er nóg pláss. Óraunhæft er að flestir muni hjóla eða taka strætó, hvorki starfsfólk né sjúklingar. Mengun og ónæði frá umferð verður mikið og mun aukast ef biðstöð Strætó verður færð að BSÍ. Möguleg borgarlína yrði full í aðra áttina en tóm í hina.

Rannsóknarstofan er of lítil áður en hún er byggð. Rándýr og viðkvæm tæki munu leika á reiðiskjálfi, ofan á henni verður þyrlupallur! Sem skapar slysahættu í Þingholtunum.

Meðan á byggingu sjúkrahótelsins stóð kvartaði starfsfólk, og sjúklingar jafnvel útskrifuðu sjálfa sig því þeir höfðu ekki heilsu til að liggja inni! Framkvæmdir við Hringbraut taka lengri tíma vegna þrengsla og tillits. Erfitt verður að fá starfsfólk til vinnu við þessar aðstæður, hávaði og ónæði! En rúm eru lokuð vegna manneklu og fleiri legurými vantar því biðlistar eru langir. Fólk mun áfram liggja á göngum nýja spítalans við Hringbraut, því legurýmum þar mun ekki fjölga og ekki pláss fyrir allar deildir. Öldruðum er að fjölga, þeir munu því fljótlega teppa sjúkrahótelið sem á að bjarga öllu. Það þarf að byggja fleiri hjúkrunarheimili.

Mikið af rúmmetrum byggingamagnsins fer í langar tengingar. Flutninga á að leysa með vélmönnum!

Bygging nýs spítala ætti að vera forgangsmál nýrrar stjórnar og þings. Spítali til framtíðar sem við gætum verið stolt af, fyrir góða heilbrigðisþjónustu, en ekki til að sýnast gagnvart háskólum, vísindaiðnaðinum og lyfjafyrirtækjum. Nauðsynlegt er að breyta lögunum um staðsetningu nýs spítala sem fyrst, svo hægt sé að byggja hann hratt og vel. Líka áður en að byggt verður á öllum mögulegum stöðum, t.d. Keldum.

1. febrúar skrifa fagaðilar grein um byggingu nýs Landspítala https://www.visir.is/g/2018180209997/haettuleg-hugmynd- .

Það er hættulegra og dýrara að byggja við spítalann við Hringbraut. Er ekki betra að byggja spítala á betri stað til lengri framtíðar en nokkurra ára? Eða ætlum við þá að byggja spítalann sem allir vilja, byggja tvo? Getum við það? Ef ekki, þá mun einkavæðingin bjarga því sem spítalinn við Hringbraut nær ekki að sinna. Vill þjóðin það? Hún vill meira fé í heilbrigðiskerfið, en ekki sóa í sokkinn kostnað eins og spítali við Hringbraut mun verða.

Falleg bygging gamla Landspítalans mun hverfa. Viljum við það?

Höfundur er skattborgari




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×