Umfjöllun, viðtöl og myndir: KR - Njarðvík 89-74 │ Íslandsmeistararnir hefja titilvörnina á öruggum sigri

Árni Jóhannsson skrifar
KR-ingurinn Kristófer Acox var frábær í kvöld.
KR-ingurinn Kristófer Acox var frábær í kvöld. Vísir/bára
Fyrsti leikur átta liða úrslita Dominos deildarinnar í körfuknattleik á milli KR og Njarðvíkur fór fram fyrr í kvöld og það má með sanni segja að þetta hafi verið leikur tveggja hálfleika. KR náði forskoti í einvíginu og litu ansi vel út á meðan þeir náðu í það. Fyrri hálfleikurinn var hrikalega spennandi og jafn nánast allan tímann þar sem liðin áttu góða spretti í fyrsta leikhluta og skiptust svo á að skora í öðrum leikhluta framan af leikhlutanum. Í lok fyrri hálfleiks komust KR-ingar á sprett sem gerði það að verkum að heimamenn fóru inn í hálfleik með sex stiga forskot.

Njarðvíkingar skoruðu fyrstu fjögur stig seinni hálfleiksins en eftir það kláruðu KR-ingar leikinn með því að ná 13-0 sprett og litu þeir ekki til baka eftir það. Góð vörn og skilvirkur sóknarleikur sló gestina út af laginu og heimamenn keyrðu heim með fyrsta sigurinn og hefja titilvörnina með besta móti og leiða einvígið 1-0 áður en farið er til Njarðvíkur á mánudaginn og barist í Ljónagryfjunni.



Afhverju vann KR?

Efir jafnan fyrri hálfleik skellti KR í lás varnarlega og hittu úr nánast öllu á góðum kafla í byrjun seinni hálfleiks. Þeir náðu 13-0 sprett sem skapaði gott forskot sem heimamenn bættu við jafnt og þétt þangað til munurinn var orðinn 30 stig þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af leiknum.

Það er mjög gott að hafa leikmenn eins og Jón Arnór Stefánsson og Kristófer Acox sem leiða liðið ásamt því að fá gott framlag frá Birni Kristjánssyni, Pavel Ermolinskij og Kendall Pollard. Njarðvíkingar þurfa að gera meira af því sama og þeir gerðu í fyrri hálfleik til að halda spennu í einvíginu.



Hvað gekk illa?

Sóknarleikur gestanna gekk bölvanlega í seinni hálfleik en það er náttúrlega góðum varnarleik heimamanna að þakka sem þvinguðu Njarðvíkinga út úr sínum aðgerðum. Það gerði það að verkum að þegar opnu skotin komu og sniðskotin þá geiguðu þau. Vítanýting gestanna var líka afleit í fyrri hálfleik en það kannski skiptir engu máli þegar upp er staðið.

Bestu menn vallarins?

Hjá KR voru það áðurnefndir Jón Arnór Stefánsson og Kristófer Acox sem stóðu sig best. Jón Arnór skilaði 21 stigi í hús og ef mig minnir rétt þá voru þetta allt mikilvæg stig í þeirri merkingu að stigin komu á góðum tímapunktum sem juku stemmningu og hleyptu sínum mönnum á sprett. Kristófer Acox fyllti síðan mjög vel í tölfærði dálkana sína, 19 stig, 13 fráköst, fjórar stoðsendingar og tvö varin skot. Allt þetta með 75% skotnýtingu og einum töpuðum bolta.

Hjá Njarðvík var það Logi Gunnarsson sem dró vagninnm með 16 stig og 4 stoðsendingar. Honum sárlega vantaði hjálp frá sínum mönnum í síðari hálfleik og vonum við að fleiri stígi upp í Ljónagryfjunni á mánudag.



Hvað gerist næst?

Njarðvíkingar fara heim og sleikja sárin og undirbúa sig fyrir að taka á móti KR í Ljónagryfjunni á mánudag. KR fær að fagna aðeins um helgina en mega ekki gleyma því að nú erum við komin í úrslitakeppnina og einn góður leikur er langt í frá að vera nóg.

Finnur: Það var skrekkur í okkur
vísir/hanna
Þjálfari KR var að vonum ánægður með sína menn sem náðu góðum úrslitum gegn Njarðvík í fyrsta leik í átta liða úrslitum Íslandsmótsins. Hann var spurður að því hvað hann hafi sagt við sína menn í hálfleik en fyrstu mínútur í seinni hálfleik réðu úrslitum leiksins.

„Það voru ákveðnir hlutir sem við þurftum að einfalda og þá sérstaklega varnarlega. Við gerðum nokkra hluti virkilega vel varnarlega í seinni hálfleik fyrir utan seinustu tvær til þrjár mínúturnar. Við héldum þeim í einhverjum 20 stigum framan af hálfleiknum og þar kom þéttleikinn sem okkur vantaði í fyrri hálfleik ásamt því að við sýndum þolinmæði í sóknarleiknum“.



Finnur talaði um að skrekkur hafi verið í sínum mönnum vegna tilefnisins þegar hann var spurður út í það hvernig hann sæi einvígið fyrir sér.



„Þetta verður líklega mjög svipað, það sást kannski á okkur að þetta var fyrsti leikur í einvíginu. Það var skrekkur í okkur bæði í vörn og sókn og vorum við fullmikið að flýta okkur en það er gott fyrir sjálfstraustið að koma hérna og ná í góða frammistöðu. Þetta er bara leikur eitt og við vitum það að þótt að við höfum náð góðum fyrsta leik á móti Njarðvík þá er leikur tvö allt annað og við þurfum að læra af þessum leik, bæði það góða og slæma, og vera svo klárir í leikinn á mánudaginn“.



Um hvíld manna sagði Finnur: „Já það er mikilvægt að ná að hvíla menn en einnig að koma fleiri mönnum inn í róteringuna, menn voru að gera vel í dag og sérstaklega kannski Siggi [Sigurður Þorvaldsson] sem hefur átt erfitt uppdráttar eftir meiðslin þannig að það var gott að fá hann inn og fleiri sem hjálpuðu til við skorið.“Finnur Freyr þjálfari KR

vísir/bára
Logi Gunnarsson: Þurfum að lengja góðu kaflana

„Við litum mjög vel út í fyrri hálfleik og mér leið mjög vel þegar hálfleikurinn var að klárast. Við vorum að spila vel í fyrri hálfleik en hleyptum þeim í smá áhlaup sem þeir héldu áfram með í seinni hálfleik og við náðum ekki að stoppa. Það var mjög erfitt hjá okkur á meðan þetta leit út fyrir að vera mjög auðvelt fyrir þá. Við sýndum það samt í fyrri hálfleik að við erum með flott lið og eigum alveg að geta staðið í þeim þótt að þeir séu góðir og með menn í öllum stöðum þá getum við byggt á góðu hlutunum í fyrri hálfleik“, sagði Logi Gunnarsson um leikinn á móti KR fyrr í kvöld.

Logi var spurður að því hvað hans menn þurfi að gera fyrir næsta leik og voru það áhlaupin sem skipta mestu máli.



„Við þurfum að lengja þessa góðu kafla hjá okkur og passa það að þeir fái ekki þessi rosalegu áhlaup þar sem þeir fá opin þriggja stiga skot í hraðaupphlaupum og sóknarfráköst. Þeir fá mjög mikið af aukaskotum og það er erfitt á móti svona góðu liði. Ef við pössum þessa hluti þá og spilum okkar leik í Njarðvíkunum þá ættum við að vera góðir“.



Logi var að lokum spurður að því hvort standið á honum væri gott en hann notaði tækifærið og kastaði kveðju á sjúkraþjálfara Njarðvíkur sem glímir við erfið veikindi.



„Mér líður mjög vel og leikmannahópurinn okkar er heill og vildi ég koma því á framfæri að við erum allir á skýrslu en okkur vantar mikilvægan hlekk. Það er hann Óli sjúkraþjálfarinn okkar hann er í mikilli baráttu við veikindi, ég sendi baráttukveðjur á hann. Þetta setur allt í samhengi, baráttan hans á móti baráttunni okkar í þessum boltaleik. Ég vildi koma á framfæri góðum kveðjum til hans, við berjumst fyrir hann í þessu“.

Arnór Hermannsson.Vísir/Bára
Jón Arnór Stefánsson.Vísir/Bára
Björn Kristjánsson.Vísir/Bára
Maciek Stanislav Baginski.Vísir/Bára
Daníel Guðni Guðmundsson.Vísir/Bára
Terrell Vinson.Vísir/Bára
Kristinn Óskarsson, dómari.Vísir/Bára
Oddur Kristjánsson.Vísir/Bára
Davíð Kristján Hreiðarsson.Vísir/Bára
Oddur Kristjánsson.Vísir/Bára
Ragnar Helgi Friðriksson.Vísir/Bára
Maciek Stanislav Baginski.Vísir/Bára
Ragnar Helgi Friðriksson.Vísir/Bára
Finnur Freyr Stefánsson.Vísir/Bára
Björn Kristjánsson.Vísir/Bára
Pavel Ermolinskij.Vísir/Bára
Ragnar Ágúst Nathanaelsson.Vísir/Bára
Pavel Ermolinskij.Vísir/Bára
Kristófer Acox.Vísir/Bára
Logi Gunnarsson.Vísir/Bára
Ragnar Helgi Friðriksson.Vísir/Bára
Kristinn Pálsson.Vísir/Bára
Kendall Pollard.Vísir/Bára

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira