Lífið

Katy Perry gagnrýnd fyrir að kyssa 19 ára keppanda í American Idol án samþykkis

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Atvikið, sem sést hér á mynd, hefur vakið hörð viðbrögð í Bandaríkjunum.
Atvikið, sem sést hér á mynd, hefur vakið hörð viðbrögð í Bandaríkjunum. Vísir/Skjáskot
Benjamin Glaze, 19 ára keppandi í American Idol, segist hafa liðið „óþægilega“ þegar söngkonan Katy Perry, einn dómara í þáttaröðinni, kyssti hann á munninn í áheyrnarprufu hans sem tekin var upp í fyrra.

Áheyrnarprufan var sýnd í sjónvarpi í vikunni. Áður en Glaze hóf upp raust sína trúði hann dómurunum, þ.á.m. Perry, fyrir því að hann hefði aldrei kysst stelpu. Perry kallaði Glaze þá upp að dómaraborðinu og fékk hann til að kyssa sig á kinnina.

Hún virtist þó ekki nógu ánægð með þessa fyrstu tilraun og bað hann um að reyna aftur. Perry gerði sér þá lítið fyrir og sneri höfðinu þannig að varir þeirra Glaze mættust.

Í samtali við New York Times segir Glaze, sem virtist strax sleginn yfir atvikinu í áheyrnarprufinni, að honum hafi liðið „óþægilega“ eftir kossinn. Þá sagðist hann myndu hafa sagt nei ef Perry hefði beðið um samþykki áður en hún lagði til atlögu.

„Ég veit að margir strákar hefðu sagt: „Heldur betur!“,“ sagði Glaze um atvikið, sem margir hafa flokkað sem hreina og beina kynferðislega áreitni.

„Fjölskylda mín er íhaldssöm og mér leið strax illa. Ég hefði viljað að fyrsti kossinn minn væri einstakur.“

Þá hafa margir gagnrýnt Perry á samfélagsmiðlum og þá sérstaklega fyrir að hafa ekki fengið samþykki hans áður en hún kyssti hann. Mörgum fannst hegðun Perry einnig viðhalda þeirri skaðlegu hugmynd að karlmenn geti ekki verið áreittir kynferðislega.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×