Skoðun

Dönsum gegn ofbeldi!

Stella Samúelsdóttir skrifar
„Ég er stoltur femínisti. Allir karlmenn eiga að beita sér fyrir kynjajafnrétti,“ sagði António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, í ræðu sinni við setningu 62. kvennanefndarfundar Sameinuðu þjóðanna í New York fyrr í vikunni þar sem ég er stödd í hringiðu jafnréttismála.

Það er óhætt að segja að sá andi sem hér svífur yfir vötnum tengist #metoo-byltingunni sem hefur haft áhrif í hverju einasta landi. Umræðan hér tengist mjög stöðu karlmanna og hvernig hægt er að endurskoða staðlaðar hugmyndir okkar um karlmennsku.

Eins og Emma Holten, aktívisti og femínisti, sagði á einum fundinum: „Við þurfum að elska karlmenn, en elska þá án þess að tengja þá við vald.“ Á fundinum í ár er sjónum þó sérstaklega beint að stöðu og valdeflingu kvenna í dreifbýli; hvernig tryggja megi þeim aukin réttindi, atvinnutækifæri, fæðuöryggi, aðgang að ræktunarlöndum, tækni, menntun, heilsu og hvernig uppræta megi ofbeldi gegn konum og stúlkum í dreifbýli.

Róhingjakonur eru án efa berskjaldaðasti slíki hópur kvenna í dag, en þær hafa flúið Mjanmar til Bangladess undan ofsóknum, hópnauðgunum og linnulausu ofbeldi undanfarinna áratuga. Við hjá Landsnefnd UN Women á Íslandi höfum hafið sms-neyðarsöfnun fyrir Róhingjakonur. Ég vil því hvetja landsmenn til að lýsa upp myrkur Róhingjakvenna og senda sms-ið KONUR í 1900 (1.900 kr.) og styrkja neyðarathvarf UN Women þar sem konur hljóta vernd, áfallahjálp, atvinnutækifæri og sæmdarsett með helstu hreinlætisvörum, teppi, vasaljós og vistvæn kol til matseldar og upphitunar.

Síðast en ekki síst hvet ég alla til að mæta á dansbyltingu UN Women og Sónar Reykjavík – Milljarður rís sem haldin er í dag kl. 12-13 í Hörpu og víðsvegar um landið. Í ár tileinkum við Milljarður rís konum af erlendum uppruna sem þurft hafa að þola margþætta mismunun og ofbeldi. Ég hvet ykkur til að mæta, dansa gegn kynbundnu ofbeldi með gleði að vopni og hlusta á þeirra raddir. Tíminn er núna!

Höfundur er framkvæmdastýra UN Women á Íslandi




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×