Innlent

Von á yfirlýsingu frá Sigur Rós

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Meðlimir Sigur Rósar mótmæltu kyrrsetningunni á þeim grundvelli að stór hluti hennar varði einfalda túlkun á tekjuskattslögum. Þá hafi verið um að ræða handvömm endurskoðanda en ekki ásetning.
Meðlimir Sigur Rósar mótmæltu kyrrsetningunni á þeim grundvelli að stór hluti hennar varði einfalda túlkun á tekjuskattslögum. Þá hafi verið um að ræða handvömm endurskoðanda en ekki ásetning. vísir/getty
Von er á yfirlýsingu frá meðlimum hljómsveitarinnar Sigur Rósar síðar í dag samkvæmt upplýsingum Vísis vegna frétta af meintum skattalagabrotum þeirra.

Fyrst var greint frá málinu í Fréttablaðinu í dag en í desember síðastliðnum féllst sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu á beiðni tollstjóra um að kyrrsetja eignir þeirra Orra Páls Dýrasonar, Jóns Þórs Birgissonar og Georgs Holm.

Nemur kyrrsetning eignanna tæplega 800 milljónum króna en hæsta krafan er á hendur Jóni Þór, söngvari sveitarinnar, sem er betur þekktur sem Jónsi. Krafan sem snýr að honum hljóðar upp á 638 milljónir króna og nær til þrettán fasteigna, tveggja bifhjóla og tveggja bifreiða, sex bankareikninga og hlutafjár í þremur fyrirtækjum.

Krafan á hendur Orra Páli, trommara sveitarinnar, nær til tveggja fasteigna og hljóðar upp á 82 milljónir króna. Krafan á hendur bassaleikaranum Georg nemur 78,5 milljónum króna og nær til tveggja fasteigna líkt og í tilfelli Orra.

Vísir sendi fyrirspurn á Bryndísi Kristjánsdóttur, skattrannsóknarstjóra, vegna málsins en hún kvaðst ekki geta tjáð sig um einstök mál.

Því hafa ekki fengist upplýsingar um fjárhæðirnar sem meint brot ná til en gera má ráð fyrir að þau nemi mörg hundruð milljónum króna því lögum samkvæmt er ekki heimilt að kyrrsetja eignir umfram þá fjárhæð sem meint skuld nemur.

Meðlimir Sigur Rósar mótmæltu kyrrsetningunni á þeim grundvelli að stór hluti hennar varði einfalda túlkun á tekjuskattslögum. Þá hafi verið um að ræða handvömm endurskoðanda en ekki ásetning.


Tengdar fréttir

Meðlimir Sigur Rósar sakaðir um skattsvik

Sýslumaður kyrrsetti eignir meðlima Sigur Rósar upp á tæplega 800 milljónir króna vegna meintra skattalagabrota. Hljómsveitarmeðlimir mótmæltu allir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×