Fótbolti

Southgate fundar með enska landsliðinu vegna dýfinga og VAR

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gareth Southgate er landsliðsþjálfari Englands
Gareth Southgate er landsliðsþjálfari Englands vísir/getty
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, mun halda fund með leikmönnum sínum til þess að fara yfir myndbandsdómarana á HM og mikilvægi þess að sleppa öllum leikrænum tilburðum.

Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur gefið út að myndbandsdómarar verði notaðir á mótinu í Rússlandi í sumar. Líklegt er að sérstaklega verði reynt að taka á dýfum og öðrum leikaraskap leikmanna.

„Við munum tala við alla leikmennina um allt það sem gæti komið þeim í vandræði á mótinu, hvort sem það er hvernig þeir tala við dómarana eða brjóti á sér. Við verðum að reyna að forðast að fá á okkur aukaspyrnur á okkar vallarhelmingi,“ sagði Southgate við The Times.

Enskir leikmenn virðast oftast vera í miðdepli umræðu um dýfingar, Dele Alli er með orðspor fyrir leikaraskap og Ashley Young virtist oft fara niður við auðveldar sakir á yngri árum og þá fékk Danny Welbeck mjög umdeilda vítaspyrnu dæmda í leik Arsenal og AC Milan í Evrópudeild UEFA í gær.

„Dýfingar eru hluti af því sem við þurfum að fara yfir. Við verðum dæmdir með myndbandsdómgæslu og þá munu leikmenn þurfa að verða einbeittari.“

Þá mun Southgate og teymi hans ræða við ensku landsliðsmennina um samfélagsmiðla og notkun þeirra, þá sérstaklega hvernig þeir bregðist við umræðu um þá á samfélagsmiðlum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×