Umfjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 28-22 | Valskonur deildarmeistarar

Gabríel Sighvatsson skrifar
Valur er deildarmeistari Olís-deildar kvenna.
Valur er deildarmeistari Olís-deildar kvenna. Vísir/Andri Marinó
Það var boðið til veislu í Víkinni þegar Valur og Haukar mættust í úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn í Olísdeild kvenna í dag.

Leikurinn gat ekki farið fram að Hlíðarenda, heimavelli Vals vegna árshátíðar þar á bæ og því var spilað í Víkinni.

Skemmst er frá því að segja að Valur var betri aðilinn í leiknum. Haukarnir náðu ekki að nýta færin sín og var markmaður Vals óþægur ljár í þúfu.

Haukar náðu engri markvörslu þó vörnin hafi verið fín og var það dýrt. Valur fór með sigur og bikar af hólmi, lokatölur 28-22.

Vísir/Andri Marinó
Af hverju vann Valur?

Markvarslan munaði miklu í leiknum. Báðar varnir voru fínar framan af en Valur nýtti færin sín betur en Haukar í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik hrökk Lina Melvik Rypdal í marki Vals í gang og varði hún hvert skotið á fætur öðru.

Valur náði þannig að auka forskotið sitt og þá var ekki spurt að leikslokum.

Hvað gekk illa?

Haukarnir voru í vandræðum í vörninni og sérstaklega í markvörslu. Úrslitaleikir vinnast oft á svoleiðis atriðum og það átti svo sannarlega við í dag.

Í sókninni voru þær ekki heldur að nýta færin og gerðu of mikið af mistökum.

Hverjar stóðu upp úr?

Lina Melvik Rypdal var í stuði í marki Vals og átti 13 varin skot sem fór langt með að tryggja Val sigurinn. Kristín Guðmundsdóttir var markahæst hjá Val með 7 mörk og þá skoraði Morgan Marie Þorkelsdóttir 5 mörk.

Hvað gerist næst?

Valur mun taka nokkra daga í að fagna titlinum áður en alvaran tekur við aftur. Haukar enda í 4. sæti og fá þá tækifæri til að hefna sín fyrir leik dagsins þegar þær spila við nýkrýnda deildarmeistara enn eina ferðina.

Ágúst: Fögnum og njótum í nokkra daga
vísir/ernir
„Stelpurnar spiluðu frábærlega í dag, varnarleikurinn var góður og sóknarleikurinn agaður og gerðum lítið af tæknifeilum," sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals í leikslok.

„Haukarnir eru mjög öflugar og skipulagðir en miðaða við hvernig þetta fór í dag fannt mér þetta ekki ósanngjarnt.“

„Mér fannst markvarslan ekkert spes en þetta var góður leikur. Við vorum aðeins agaðri og skynsamari og sköpuðum góð færi og ég er mjög ánægður með leik stelpnanna.“

Ágúst getur verið sáttur með tímabilið til þessa.

„Stelpurnar eru búnar að leggja mikið og sig og erum himinlifandi með þennan árangur.“

Fyrsti andstæðingur í úrslitakeppninni eru síðan einmitt Haukar.

„Það er bara 50/50 eins og síðustu leikir. Við fögnum og njótum í nokkra daga og svo undirbúum við okkur fyrir úrslitakeppnina.“

Morgan: Fyrsti deildarbikar minn„Ég er mjög sátt, þetta er fyrsti deildarbikarinn minn. Við mættum allar til leiks eins og við ætluðum okkur að gera og klæaruðum þetta með stæl,“ sagði Morgan Marie Þorkellsdóttir, leikmaður Vals.

„Þær voru í 5-1 einum sem við erum óvanar að spila gegn og mér fannst við leysa það vel. Oft í undanförnum leikjum erum við fínar í fyrri hálfleik en missum dampinn í síðari hálfleik og við ætluðum ekki að gera það í dag.“

Þá er henni alveg sama hvaða lið þær mæta í úrslitakeppnini.

„Mér líst vel á öll liðin og mér er alveg sama hverja við fáum.“

Elías Már: Meðalaldur okkar er 22 ár„Við náum ekki alveg upp þeirri vörn og markvörslu sem við ætluðum okkur. Þær voru hikandi við vinklana úr öllum stöðum á meðan við vorum að klúðra dauðafærum.“

„Það er líklega ástæðan fyrir að Valur vann þennan leik. Svona úrslitaleikir ráðast oft af markvörslu, við brenndum okkur á því síðustu helgi og fáum það aftur í andlitið núna.“

Þrátt fyrir tapið í dag, er Elías ánægður með tímabilið í heild.

„Ég held að það hafi ekki nokkur marður þorað að spá því að við myndum spila úrslitaleik í síðustu umferð, við erum búin að spila frábærlega í allan vetur og höfðum engu að tapa í þessu.“

„Við höfum spilað við lið eins og Fram sem er með gríðarlega marga landsliðsmenn, Val sem er með 3 útlendinga og meðalaldur okkar er 22 ár. Við erum búin að vera í úrslitum um allt og við berum höfuðið hátt.“ sagði Elías að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira