Erlent

Aðstoðarforstjóri FBI rekinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Andrew McCabe, fyrrverandi aðstoðarforstjóri bandarísku alríkislögreglunnar.
Andrew McCabe, fyrrverandi aðstoðarforstjóri bandarísku alríkislögreglunnar. Vísir/AFP
Andrew McCabe, aðstoðarforstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, var rekinn í gærkvöldi. Í frétt BBC segir að brottrekstur McCabe beri upp aðeins tveimur dögum áður en hann hugðist fara á eftirlaun.

McGabe var rekinn af dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Jeff Sessions. Sessions segir ákvörðunina hafa verið tekna eftir viðamikla innri rannsókn á starfi McCabe. Þá sakar Sessions McCabe um að hafa lekið upplýsingum í fjölmiðla án leyfis, auk þess sem hann hafi ekki sýnt af sér þann heiðarleika og ábyrgð sem krafist er af aðstoðarforstjóra FBI.

Sjálfur er McCabe óánægður með ráðahaginn og segir brottreksturinn byggðan á rangfærslum. Þá vill hann meina að um sé að ráða árás á trúverðugleika sinn.

„Þetta er mismunun gagnvart mér vegna aðkomu minnar, gjörða minna og þess sem ég varð vitni að í kjölfar brottreksturs James Comey [fyrrverandi forstjóra FBI],“ sagði McCabe í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér vegna málsins. Bandaríkjaforseti rak Comey í maí í fyrra vegna aðkomu þess síðarnefnda að rannsókn á tölvupóstum Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trumps í forsetakosningunum 2016.

McCabe sagði óvænt af sér störfum í janúar síðastliðnum. Hann hafði verið starfandi forstjóri FBI eftir að Comey var rekinn og þangað til nýr forstjóri var skipaður í ágúst. McCabe varð miðpunktur gagnrýni Trump á aðkomu FBI á rannsókn á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum og mögulegrar aðkomu forsetaframboðs Trump. Hafði forsetinn ítrekað sakað McCabe um hlutdrægni.

Trump tjáði sig um brottrekstur McCabe á Twitter-reikningi sínum og sagði um að ræða „frábæran dag fyrir hina duglegu starfsmenn FBI.“ Þá hélt forsetinn því fram að McCabe hefði verið meðvitaður um „lygar og spillingu“ í efstu lögum alríkislögreglunnar.


Tengdar fréttir

Trump heimilar birtingu minnisblaðsins umdeilda

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur heimilað birtingu á umdeildu minnisblaði Repúblikana sem gagnrýnir alríkislögregluna FBI og dómsmálaráðuneytið harðlega.

Alríkislögreglan grípur til varna

Ríkisstjórn Donald Trump og bandamenn hans á þingi standa nú í opinberum slag við Alríkislögreglu Bandaríkjanna og Dómsmálaráðuneytið.

Næstráðandi FBI hættir óvænt

Andrew McCabe, aðstoðarforstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, tilkynnti starfsmönnum í dag að hann mundi láta af störfum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×