Skoðun

Geðræn katastrofía

Davíð Snær Jónsson skrifar skrifar
Fyrir liggur þingsályktunartillaga um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum, þess efnis að mennta- og menningarmálaráðherra eigi að sjá til þess að frá og með skólaárinu 2018–2019 verði öllum nemendum í framhaldsskólum landsins tryggt aðgengi að sálfræðiþjónustu innan veggja skólanna þeim að kostnaðarlausu.

Samband íslenskra framhaldsskólanema vakti athygli á þörfinni á þjónustunni með herferðinni #MÍNGEÐHEILSA. Þar deildu rúmlega þúsund einstaklingar myndum sem voru sérstaklega tileinkaðar herferðinni. Mér sjálfum var mjög brugðið að sjá hve stórt þetta tiltekna vandamál er og tel ég okkur geta gert svo miklu, miklu betur á þessu sviði fyrir nemendur.

Horfum til framtíðar. Í skýrslu Tryggingarstofnunnar frá árinu 2013 voru 60% öryrkja undir þrítugu vegna geðraskanna. Í heildina voru það 975 einstaklingar. Með tilkomu sálfræðiþjónustu innan framhaldsskólanna teljum við okkur geta komið í veg fyrir þessa háu prósentu öryrkja. Þessir einstaklingar sem enduðu á örorku, hefðu þess frekar getað endað á vinnumarkaðinum og skilað sínu til samfélagsins. Það er ekki lausn í sjálfu sér að viðhalda vandamálinu, heldur takast á við það.

Sálfræðingar verða að geta gripið inn í snemma í ferlinu og brugðist við vandamálunum áður en þau verða alvarleg og illmeðfærileg. Bætt geðheilsa er öllum til framdráttar í samfélaginu. Íslensku atvinnulífi, íslensku samfélagi og íslensku skólakerfi.

Gagnlegt er að benda á að innan skólanna erum við með allskonar starfsfólk og má þar nefna; skólastjórnendur, kennara, húsverð, bókasafnsstarfsmenn og náms- og starfsráðgjafa. Ef að vandamálið liggur í fjármagni þjónustunnar, þurfum við að líta í kringum okkar og horfa á hvað sé mikilvægast fyrir nemandann.

Samband íslenskra framhaldsskólanema hefur sent umsögn um þingsályktunartillögu nokkura flokka sem má finna hér.

Höfundur er formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema.




Skoðun

Sjá meira


×