Innlent

Hestamenn furða sig á dularfullu hvarfi þrjú þúsund lítra bjórdósar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Böðvar segir tankinn um 6 metra háan og rúma 3000 lítra.
Böðvar segir tankinn um 6 metra háan og rúma 3000 lítra. Mynd/Garðar Gíslason
Þrjú þúsund lítra vatnstankur Hestamannafélagsins Spretts, sem málaður er eins og bjórdós frá Bola, hefur ekki sést í nokkra daga. Félagar Spretts furða sig á hvarfinu sem þeir segja hið dularfyllsta mál.

„Þetta er vatnstankur sem við notum til að bleyta reiðvellina þegar það er þurrt,“ segir Böðvar Guðmundsson hjá Spretti í samtali við Vísi, eða svokölluð „pissutunna“ eins og hún er kölluð innan félagsins. „Tunnan hefur staðið hérna hjá okkur uppi í Hestamannafélaginu Spretti og hún er bara horfin.“

Böðvar segist gera ráð fyrir að nú sé um vika síðan tankurinn, sem er um 3000 lítrar og 6 metra hár, hvarf en ekki liggur fyrir hvort um þjófnað sé að ræða.

„Við vorum að velta því fyrir okkur hvort einhver hafi fengið hana lánaða en það er enginn sem veit neitt. Við erum búnir að hringja út um allt. Svona tunna hverfur ekkert fyrirvaralaust,“ segir Böðvar.

„Það sem ýtir undir grunsemdir okkar er að löppin sem er undir tunnunni, hún er á sínum stað, þannig að þú tekur þetta ekkert af tunnunni nema með einhverjum græjum,“ en tankurinn stóð fyrir utan Samskipahöllina í Kórahverfinu í Kópavogi þangað til hann gufaði upp fyrir nokkrum dögum síðan.

„Þetta er hið dularfyllsta mál,“ segir Böðvar og biðlar til íbúa höfuðborgarsvæðisins að hafa augun opin næstu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×