Innlent

Bjórdósin risastóra komin í leitirnar: „Þetta er einhver húmor“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tankurinn fannst í Gufunesi.
Tankurinn fannst í Gufunesi. Mynd/Böðvar
Þrjú þúsund lítra vatnstankur Hestamannafélagsins Spretts, sem málaður er eins og bjórdós frá Bola og hefur verið týnd í nokkra daga, er komin í leitirnar. Árvökull vegfarandi kom auga á hana við ströndina í Gufunesi, skammt frá gömlu Áburðarverksmiðjunni.

„Hún er á bak við einhvers staðar, ég skil þetta ekki,“ segir Böðvar Guðmundsson hjá Spretti í samtali við Vísi. „Þetta er einhver húmor eða vitleysa.“

Líkt og kom fram á Vísi fyrr í dag var um vika frá því að tankurinn, sem erum 3000 lítrar og sex metra hár, hvarf en meðlimir Spretts vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar kerran var horfin. Í fyrstu töldu þeir að einhver hefði lánað hana en þegar svo reyndist ekki vera er líklegt að um þjófnað hafi verið að ræða.

Biðlaði Böðvar til íbúa höfuðborgarsvæðisins að hafa augun opin fyrir tankinum og bar það árangur í dag en tveir aðilar höfðu samband við Böðvar nú síðdegis og sögðust þeir hafa séð kerruna í Gufunesi, þar sem hún reyndist vera.

Ólíklegt er að einhver eftirmál verði af málinu nú þegar tankurinn er fundinn en stefnt er að því að sækja kerruna síðar í kvöld.

„Ég ætla að reyna að koma mér upp eftir og ná í hana,“ segir Böðvar. „Það er bara verið að bíða eftir góðum bíl í þetta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×