Körfubolti

Dinkins skaut Skallagrím í kaf

Anton Ingi Leifsson skrifar
Dinkins var mögnuð í leiknum.
Dinkins var mögnuð í leiknum. vísir/andri marinó
Skallagrímur varð af mikilvægum stigum í baráttunni við Stjörnuna um síðasta sætið í úrslitakeppninni í Dominos-deild kvenna er liðið tapaði fyrir Keflavík, 86-82, í Borgarnesi í dag.

Skallagrímur var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Leiddi 20-17 eftir fyrsta leikhlutann og svo í hálfleik voru Borgnesingar 40-33 yfir en þær þurftu svo sannarlega á stigunum að halda.

Ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar Keflavíkur spýttu hins vegar í lófana í síðari hálfleik. Þær unnu þriðja leikhlutann með sjö stiga mun og áttu frábæran fjórða leikhluta sem tryggði þeim fjögurra stiga sigur, 86-82.

Brittanny Dinkins gerði sér lítið fyrir og skoraði 48 stig fyrir Keflavík auk þess að taka ellefu fráköst en næst kom Erna Hákonardóttir með ellefu stig.

Keflavík er í þriðja sætinu, með jafn mörg stig og Valur, sem er í öðru sætinu en Keflavík á eftir að spila við Hauka og Njarðvík áður en úrslitakeppnin hefst.

Carmen Tyson-Thomas gerði 39 stig fyrir heimastúlkur en einnig tók hún ellefu fráköst. Jóhanna Björk Sveinsdóttir gerði 16 og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 13.

Skallagrímur er nú tveimur stigum á eftir Stjörnunni þegar tveir leikir eru eftir en liðin mætast innbyrðis í næsta leik. Það verður svakalegur leikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×