Innlent

Skilur ef ráðamenn þurfa að sitja heima

Sveinn Arnarsson skrifar
Guðni Bergsson
Guðni Bergsson Hilmar Þór
Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, segist skilja það og virða ef Ísland tekur þá ákvörðun að senda ekki ráðamenn til Rússlands á Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í sumar. Vilji allra standi hins vegar til þess að halda íþróttum og stjórnmálum aðskildum í lengstu lög.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir aðildarþjóðir NATO vera að skoða hvaða leiðir séu færar til að bregðast við morðtilraun á hendur Sergei Skripal og dóttur hans í Salisbury í Bretlandi þann 8. mars. Ein hugmyndanna er að sniðganga HM en engin niðurstaða er enn komin í málið.

„Þetta er ekki komið á neinn slíkan stað. Við erum bara að skoða færar leiðir með okkar bandamönnum,“ segir Guðlaugur Þór. „Málið er alvarlegt og því er mikilvægt að hafa ríkt samráð um viðbrögð og bregðast við þessum atburðum í Bretlandi.“

Sjá einnig: Ákvörðunin um hvort ríkisstjórnin sniðgangi HM verði tekin með nágrannaþjóðum

Guðni Bergsson segir þetta ekki trufla undirbúning KSÍ. „Þegar til kastanna kemur þá hefur þetta ekki áhrif á okkar undirbúning eða hugarfar leikmanna. Við erum einbeitt í okkar verkum,“ segir Guðni.

„Ég vil ekki blanda mér í umræðu um alþjóðastjórnmál sem formaður KSÍ. Ég vil einbeita mér að knattspyrnunni og við viljum aðskilja þetta tvennt. En ef vesturveldin taka ákvörðun á hinu pólitíska sviði um að sniðganga HM þá verðum við að virða þá niðurstöðu.“

Hann vonar að málin leysist fyrir HM svo hægt sé að hugsa eingöngu um knattspyrnu þegar leikir Íslands hefjast.

„Maður vonast auðvitað eftir því að hægt sé að leysa mál á pólitíska sviðinu en það er bara ekki alltaf svo,“ bætir Guðni við.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×