Enski boltinn

Markametið komið í stórhættu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Mohamed Salah fagnar einu af fjórum mörkum sínum um helgina.
Mohamed Salah fagnar einu af fjórum mörkum sínum um helgina. Vísir/Getty
Mohamed Salah minnti á sig á ný eftir rólega vakt um síðustu helgi þegar hann skoraði fyrstu þrennu sína fyrir Liverpool og gott betur. Skoraði hann fjögur mörk og lagði upp eitt í 5-0 sigri Liverpool á Watford um helgina en hann er nú kominn með 28 mörk í 31 leik.

Markametið í hættu

Alan Shearer, Cristiano Ronaldo og Luis Suárez deila metinu yfir flest mörk á tímabili síðan deildinni var breytt í 20 liða deild. Setti Shearer metið vorið 1995 en Ronaldo og Suárez náðu að leika það eftir að skora 31 mark á tímabili en allir eiga það sameiginlegt að hafa misst af leikjum á þessum tímabilum.

Salah hefur til þessa aðeins misst af einum leik en hann hefur nú sjö leiki til að bæta markamet þessara þriggja áður en tímabilinu lýkur. Er hann kominn með gott forskot og ætti að vinna gullskóinn í deildinni nokkuð sannfærandi eftir leiki helgarinnar.

Þá getur hann náð að skora gegn 17 af 19 liðum deildarinnar takist honum að skora gegn Brighton, West Brom og Crystal Palace en aðeins Swansea og Manchester United hefur tekist að loka á hann í tveimur leikjum.

Farinn að ógna Rush

Með fjórum mörkum sínum um helgina bætti Salah met Fernando Torres (33) yfir flest mörk á fyrsta tímabili leikmanns í sögu Liverpool. Fjórða mark Salah á laugardaginn var hans 36. mark í öllum keppnum í 40 leikjum frá félagsskiptunum frá Roma í sumar.

Þrátt fyrir að marsmánuður sé rúmlega hálfnaður er Salah þegar kominn upp að hlið Robbies Fowler í 3. sæti yfir flest mörk á tímabili sem leikmenn Liverpool skora. Vantar hann ellefu mörk til að jafna 34 ára gamalt met Ians Rush yfir flest mörk á einu tímabili.

Liverpool á eftir að minnsta kosti níu leiki á tímabilinu, sjö í deild og tvo í Evrópukeppni, en fari Liverpool alla leið þar verða leikirnir tólf sem Salah hefur til að gera atlögu að meti Rush.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×