Erlent

Féll til bana á sýningu Cirque du Soleil

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Yann Arnaud  sést hér til vinstri ásamt Goel Ouisse á sýningu Cirque du Soleil árið 2013.
Yann Arnaud sést hér til vinstri ásamt Goel Ouisse á sýningu Cirque du Soleil árið 2013. Vísir/Getty
Loftfimleikamaður fjölleikahússins Cirque du Soleil er látinn eftir að hafa fallið til bana á sýningu í Tampa Bay í Flórída.

Yann Arnaud, 38 ára Frakki, hafði tekið þátt í atriði sem fram fór hátt yfir gólfi leikhússins á laugardag. Hafði hann meðal annars sveiflað sér á milli reipa sem héngu úr loftinu þegar óhappið varð og hann hrapaði til jarðar. Arnaud var fluttur á sjúkrahús þar sem hann svo lést af sárum sínum.

„Öll Cirque du Soleil-fjölskyldan er í losti og miður sín,“ segir í yfirlýsingu fjölleikahússins, sem má lesa hér að neðan.

Fyrirtækið segist nú vinna að rannsókn málsins með þarlendum lögregluyfirvöldum. Næstu tveimur sýningum þess hefur verið aflýst.

Loftfimleikamaðurinn Arnaud hafði starfað með Cirque du Soleil í rúm 15 ár og er hans minnst með einskærum hlýhug af samstarfsmönnum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem starfsmenn fjölleikahússins látast við störf sín. Það gerðist síðast árið 2013 í Las Vegas þegar annar loftfimleikamaður féll til jarðar. Þá fannst sonur stofnanda Cirque du Soleil látinn í desember árið 2016 eftir að hafa orðið undir lyftu sem notuð var í sýningum hópsins.


Tengdar fréttir

Banaslys í Cirque du Soleil

Loftfimleikakona í hinni frægu Cirque du Soleil-sýningu í Las Veges lést eftir að hafa fallið um 15 metra í miðri sýningu í gærkvöldi. Vitni segja að slysið hafi átt sér stað í lok sýningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×