Erlent

Sprengjufaraldur í Texas

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan í Austin hefur brugðist við rúmlega 700 ábendingum um grunsamlega pakka síðastliðna viku.
Lögreglan í Austin hefur brugðist við rúmlega 700 ábendingum um grunsamlega pakka síðastliðna viku. CNN
Tveir eru særðir eftir sprengingu í borginni Austin í Texas-ríki Bandaríkjanna. Síðustu vikur hafa sprengjur sem faldar hafa verið í hvers kyns pökkum og pinklum orðið tveimur að bana og sært tvo.

Lögreglan hefur ekki getað staðfest að sprengjan sem sprakk í gærkvöldi tengist fyrri sprengingum eða hvort hún telji að búast megi við fleirum. Hún hefur engu að síður beðið íbúa borgarinnar að halda sig innandyra eftir fremsta megni.

Sprenging gærdagsins varð aðeins örfáum klukkustundum eftir að lögreglan hafði lofað að borga 100 þúsund bandaríkjadali, um 10 milljónir króna, fyrir upplýsingar sem gætu leitt til úrlausnar málsins.

Áður hafði ríkisstjóri Texas heitið 15 þúsund dölum, einni og hálfri milljón króna, til sama málefnis.

Anthony Stephan House var 29 ára og Draylen William Mason 17 ára þegar þeir létust í pakkasprengingum fyrr í þessum mánuði.FBI
Mennirnir tveir sem létust í sprengingunum fyrr í þessum mánuði eru báðir svartir á hörund. Lögreglan hefur því ekki útilokað að kynþáttahatur búi að baki pakkasendingunum.

Íbúum Austin hefur verið ráðið frá því að snerta kassa og pakka sem þeim þykja grunsamlegir. Lögreglan telur þannig að pakkarnir hafi aðeins sprungið eftir að búið var að taka þá upp.

Hundruð lögreglumanna vinnur nú að rannsókn málsins en enginn hefur verið handtekinn enn sem komið er. Laganna verðir hafa þó brugðist við 735 tilkynningum um grunsamlega pakka síðastliðna sjö daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×