Innlent

Dekk undan strætisvagni olli tjóni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þrjú hjól undir bílnum, en áfram skröltir hann þó.
Þrjú hjól undir bílnum, en áfram skröltir hann þó. Vísir
Dekk, sem losnað hafði undan strætisvagni á akstri á Víkurvegi á sjöunda tímanum í gærkvöldi, hafnaði framan á bifreið sem á móti kom. Að sögn lögreglunnar mun bílstjóri strætisvagnins ekki hafa tekið eftir óhappinu „en veitti því athygli síðar að dekk vantaði undir vagninn,“ eins og það er orðað.

Bifreiðin sem varð fyrir dekkinu er hins vegar töluvert skemmd og kvartaði ökumaðurinn um meiðsli í baki. Ekki fylgir sögunni hvort ökumaður strætisvagnsins hafi haldið för sinni áfram eða hvort honum hafi verið gert að stöðva aksturinn.

Þá fékk lögreglan tilkynningu um annað umferðaróhapp skömmu síðar sem orðið hafði við Dverghöfða. Þar hafði ökumaður ekið á bifreið og síðan stungið af. Lögreglan hafði hendur í hári ökumannsins við Dugguvog og kom þá í ljós að hann var líklega ölvaður undir stýri. Ökumaðurinn er jafnframt sagður hafa ekið án þess að hafa til þess leyfi, sem og að hafa brotið forgang við gatnamót.

Einnig var áfengi stolið úr bifreið við Glæsibæ og gaskútum í Breiðholti. Ekki er vitað hver var að verki í fyrra tilfellinu en tveir voru handteknir vegna gaskútastuldarins. Þeir voru fluttir í fangageymslu og verða yfirheyrðir í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×