Innlent

Léku Valse Triste eftir Sibelius fyrir fallinn félaga

Jakob Bjarnar skrifar
Hélène Grimaud lék fyrir gesti í Hörpu en hljómsveitin saknaði eins kontrabassaleikara sinna.
Hélène Grimaud lék fyrir gesti í Hörpu en hljómsveitin saknaði eins kontrabassaleikara sinna.
Gestir á tónleikum Gautaborgarsinfóníunnar í Hörpu í gærkvöldi fengu óvænt að heyra Valse Triste eftir Jean Sibelius, sem aukalag. Sem þó var ekki á efnisskránni. Þetta kom ekki til af góðu. Hljómsveitin lék þennan dramatíska vals og tileinkuðu föllnum félaga, án þess þó að taka það sérstaklega fram en bassaleikari hljómsveitarinnar fékk hjartaáfall á föstudaginn og varð bráðkvaddur.

Gautaborgarsinfónían er voldug, bassadeildin að þessu sinni taldi sex menn en sá látni var stemmleder eða annar þeirra sem leiðir bassaleikarahópinn. Hljómsveitin syrgir sinn félaga en lét þetta þó ekki slá sig út af laginu og fóru tónleikarnir fram við góðar undirtektir.

Efnisskrá tónleikanna var að öðru leyti svíta úr Rósarriddaranum eftir Richard Strauss, Píanókonsert nr. 4 eftir Beethoven og Sinfónía nr. 1 eftir Jean Sibelius. Einleikari var hin franska Hélène Grimaud sem hefur um áratuga skeið verið í hópi fremstu píanista heims og hljómsveitarstjóri Santtu-Matias Rouvali. Rouvali, Finninn ungi, er einn eftirsóttasti stjórnandi heims um þessar mundir. Hann hefur tvívegis stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, með frábærum árangri segir á vef Hörpu, en hann tók við stöðu aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitarinnar í Gautaborg haustið 2017.

Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt tónleika í Gautaborg í apríl síðastliðnum við dágóðar undirtektir. Nú er komið að Gautaborgarsinfóníunni að endurgjalda greiðann og leika fyrir Íslendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×