Fótbolti

Jóhann Berg: Aron Einar finnur eitthvað nýtt svo allir Íslendingar sjái hvað hann er mikill víkingur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Einar Gunnarsson með Gylfa Þór Sigurðssyni á góðri stundu á EM 2016.
Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Einar Gunnarsson með Gylfa Þór Sigurðssyni á góðri stundu á EM 2016. Vísir/Getty
Jóhann Berg Guðmundsson leyfði sér að skjóta svolítið á landsliðsfyrirliðann Aron Einar Gunnarsson í viðtali á dögunum en framundan er mögulega fyrsti leikur Arons Einars á árinu 2018.

Íslenska landsliðið spilar vináttulandsleik við Mexíkó í San Francisco á föstudagskvöldið og þar verður Aron Einar vonandi eitthvað með.

Aron Einar er byrjaður að æfa með Cardiff eftir aðgerð á ökkla í desember en hefur ekki spilað með sínu liði. Hann mun vera með íslenska liðinu fram yfir Mexíkóleikinn en flýgur síðan aftur til Wales.

Aron Einar er þekktur fyrir að fórna sér fyrir íslenska landsliðið og spila oft landsleiki í óþökk knattspyrnustjóra Cardiff. Hann kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að því að spila í gegnum sársauka.

„Hann er búinn að selja ykkur fréttamönnum það að hann sé íslenski víkingurinn og nái á einhvern ótrúlegan hátt að verða heill fyrir hvern leik," sagði Jóhann Berg Guðmundsson léttur í viðtali við vefsíðuna fótbolti.net en viðtalið var tekið á æfingsvæði Burnley á dögunum.

„Þetta rugl er komið á endastöð hjá honum. Við heyrum samt örugglega eitthvað nýtt fyrir HM. Hann finnur eitthvað nýtt strákurinn svo allir Íslendingar verði ánægðir með að hann spili og sjái hvað hann er mikill víkingur," sagði Jóhann Berg í fyrrnefndu viðtali sem má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×