Innlent

Ákærður fyrir tvær nauðganir með innan við árs millibili

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þinghald í málinu er lokað.
Þinghald í málinu er lokað. Vísir/Hanna
Mál karlmanns sem sakaður er um gróf kynferðisbrot gegn tveimur konum var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Maðurinn er annars vegar sakaður um að hafa nauðgað konu á heimili hennar í júlí 2015 og haft við hana „önnur kynferðismök en samræði“ eins og segir í ákærunni. Þar kemur fram að konan hafi ítrekað sagt manninum að hún vildi ekkert með hann hafa, reyndi að ýta honum af sér, sparka í hann og bíta hann.

Hins vegar er maðurinn sakaður um að hafa nauðgað annarri konu á heimili sínu í maí 2016. Segir í ákæru að hann hafi haft samræði við konuna gegn hennar vilja, beitt hana ítarlegu ofbeldi og beitt ólögmætri nauðung.

„Meðal annars með því að slá hana og kýla ítrekað í andlit og líkama, taka hana kverkataki og hóta henni lífláti, halda henni fastri í rúmi og afklæða hana úr nærbuxum og sokkum og draga kjól hennar upp,“ segir í ákærunni.

Hann hafi gert tilraun til að setja getnaðarlim í munn hennar og þröngva henni til samræðis í leggöng með því að þvinga fótleggi hennar í sundur og halda höndum hennar föstum fyrir ofan höfuð hennar.

Lét hann ekki af háttseminni þrátt fyrir að konan lét hann vita að hún vildi þetta ekki, reyndi að öskra á hjálp og barðist um á meðan á þessu stóð.

Báðar konurnar krefjast tveggja milljóna króna í miskabætur vegna brotsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×