Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍR 64-57 │Stjarnan jafnaði

Böðvar Sigurbjörnsson skrifar
Matthías Orri Sigurðarson.
Matthías Orri Sigurðarson. Vísir/Andri Marinó
 Stjarnan tók í kvöld á móti ÍR á heimavelli sínum í Garðabæ í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni Domino´s deildar karla í körfubolta. ÍR vann fyrsta leik liðanna á heimavelli sínum og urðu því Stjörnumenn nauðsynlega að vinna til að lenda ekki í þeirri stöðu að þurfa að fara með bakið upp við vegg í þriðja leik liðanna, sem fer fram á heimavelli ÍR. 



Stjarnan var sterkari aðilinn til að byrja með og náði fljótlega undirtökunum í leiknum á meðan lítið gekk upp hjá gestunum. Þegar leið á fyrri hálfleikinn tókst ÍR að komast betur inn í leikinn og leiddu gestirnir í leikhléinu með fimm stigum. 

Þriðji leikhlutinn einkenndist af sterkum varnaleik en liðunum tókst aðeins samanlagt að skora 24 stig í leikhlutanum, 12 stig hvort og því ÍR áfram með fimm stiga forskot í upphafi fjórða leikhluta.

Fjórði leikhlutinn var ansi sveiflukenndur og er þá engu ofaukið þegar það er sagt. Gestirnir úr Breiðholtinu virtust hafa leikinn í höndum sér í upphafi leikhlutans og fengu nokkur tækifæri til slíta Stjörnuna frá sér. 

Það varð þó ekki því Stjarnan skellti í lás í vörninni og tók við sér í sókninni á meðan ekkert gekk upp í sóknarleik ÍR. Stjarnan sigraði leikhlutann 21-9 og um leið leikinn með 7 stigum.

Serían er því orðin jöfn þar sem bæði lið hafa unnið leiki sína á heimavelli. Það er  allt eins líklegt að við séum að fara að horfa á sex leikja seríu þar sem mikið jafnræði hefur verið með liðunum í þessum fyrstu tveimur leikjum liðanna. 

Stjarnan: Hlynur Elías Bæringsson 17/18 fráköst, Collin Anthony Pryor 17/5 fráköst, Róbert Sigurðsson 13, Eysteinn Bjarni Ævarsson 6/6 fráköst, Darrell Devonte Combs 5, Arnþór Freyr Guðmundsson 5, Tómas Þórður Hilmarsson 1/10 fráköst.

ÍR: Matthías Orri Sigurðarson 13, Danero Thomas 11/3 varin skot, Hákon Örn Hjálmarsson 11/5 fráköst, Kristinn Marinósson 9/4 fráköst, Ryan Taylor 6/14 fráköst, Sæþór Elmar Kristjánsson 5/5 fráköst, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 2.

Afhverju vann Stjarnan?

Liðið spilað góðan varnarleik í þrjá leikhluta og þá sérstaklega þegar mest á reyndi í fjórða leikhlutanum. Hrafn þjálfari lagði leikinn vel upp og liðið skilað því sem það átti að skila á vellinum.

Hverjir stóðu upp úr?

Hlynur Bæringsson var að öðrum ólöstuðum maður leiksins með 29 framlagsstig. Þessi mikli foringi spilaði hörku góða vörn á Ryan Taylor og skoraði mikilvægar körfur þegar þurfti á þeim að halda.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk ekki vel að spila sóknarleik eins og tölurnar bera með sér. Sérstaklega gekk það illa hjá ÍR liðinu, ef frá er talinn 2. leikhluti þar sem þeir skoruðu 29 stig.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast á heimavelli ÍR í Hertz hellinum á fimmtudag. Það má reikna með hörðum leik þar sem ekkert verður gefið eftir, enda forysta í einvíginu undir.

Hrafn: Vil biðja Borche afsökunar

Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar var að vonum ánægður með sína menn.

„Ég er bara ótrúlega ánægður með liðið mitt, það var rosalega mikilvægt að taka þennan leik. Ég ætla að nota tækifærið opinberlega og biðja Borche afsökunar á að hafa hlaupið upp í stúku þegar flautað var til leiksloka í stað þess að fara og taka í höndina á honum. Það var þjálfari sem var að finna fyrir pressunni og missti stjórn á gleðinni.“

Hrafn var ánægður með varnarleik liðsins í kvöld.

„Þeir skora 29 stig í öðrum leikhluta og 28 stig samanlagt í hinum þremur. Mér finnst varnaleikur fallegur þannig að því leiti var þetta fallegur leikur. Við erum komnir í 1-1 á móti annars sætis liðinu í deildinni án þess að vera byrjaðir að hitta úr körfuboltaskotum og það gefur okkur ákveðið fyrirheit.“

Hrafn sagði það ekki hafa verið góða tilhugsun að fara 2-0 undir á heimavöll ÍR.

„Það hefði verið hræðilegt að fara 2-0 undir í Seljaskóla sérstaklega þar sem það var ekki margt sem sérstaklega hefði þurft að bæta í leik liðsins.“

Hrafn sagði sína menn vera nokkuð bratta á framhaldið.

„Við erum bara brattir og höfum alltaf verið það. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er lið sem var alveg við það að ná í deildarmeistaratitilinn og eru með einn sterkasta heimavöllinn í deildinni."

„Það væri í raun ótrúlegt ef þeir myndu tapa þessu einvígi á móti sjöunda sætis liðinu en við höfum þá trú á okkur að við getum strítt þeim meira en þetta og okkur finnst við vera að gera réttu hlutina, sagði Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar að lokum.

Hlynur: Hvorugt lið var að spila neitt sérstaklega

Hin reyndi leikmaður Stjörnunnar Hlynur Bæringsson sagði leikinn hafa einkennst af mikilli baráttu.

„Mér fannst hvorugt lið spila neitt sérstaklega, sóknarleikurinn var ekki góður hjá hvorugu liðinu í raun og veru.“

Hlynur var sammála því aðspurðu að leikurinn hefði einkennst af sterkum varnaleik beggja liða. „já algjörlega en um leið kannski var sóknarleikurinn lélegur, það verður alveg að viðurkennast.“

Um baráttu sína við Ryan Taylor hafði Hlynur þetta að segja:

„Hann er mjög erfiður, sérstaklega þegar hann er að setja marga þrista eins og í síðasta leik, það var sem betur fer ekki núna og þá er þetta aðeins viðráðanlegra að eiga við hann.”

„Það er erfitt fyrir mann á mínum aldri að vera eiga við mann með svona mikinn sprengikraft eins og hann, en við hjálpumst að við það verkefni, hann er mjög góður. Ef maður bendir á það augljósa þá fara þeir væntanlega eins langt og hann tekur þá“.

Hlynur sagði liðið bjartsýnt á framhaldið

„ÍR er með ágætis lið ég ætla ekki að taka það af þeim þeir eru ekki óvinnandi, langt því frá. Við þurfum að spila betur á heimavelli þeirra, draga andann og setja þessi skot niður því nýtingin okkar hefur ekki verið góð. Ef við náum því í Seljaskólanum og förum að setja þessi skot þá getum við alveg unnið þessa seríu.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira