Skoðun

Fallega #karlmennskan

Þorsteinn V. Einarsson skrifar
Ég skrifaði 163 orða stöðufærslu á facebook í síðustu viku, undir sterkum áhrifum frá vinkonu. Karlmenn voru þar hvattir til að deila reynslu sinni af því hvernig samfélagslega viðtekin norm aftra þeim.

„Allir pabbarnir sem vissu ekki að þeir mættu eða gætu knúsað börnin sín. Allir strákarnir sem lærðu ekki heima af því það var ekki kúl. Allskonar leikir sem ekki voru í boði fyrir stráka, menntun sem var ekki raunverulegur valkostur. Hegðun, áhugamál og færni sem aldrei var þróuð. Tilfinningar sem ekki voru ræktaðar. Líðan sem ekki var rædd. Að ekki sé talað um áhrifin á náin sambönd.” Með þessum orðum varð til vettvangur fyrir karlmenn til að deila eigin sögum á eigin forsendum undir myllumerkinu #karlmennskan.

Fjölmargar átakanlegar reynslusögur hafa litið dagsins ljós. Menn deila reynslu af veruleika sínum sem þeir hafa jafnvel aldrei áður talað um við nokkurn mann. Tilfinningum og hugsunum sem þeir hafa byrgt inni, atvikum sem þeir hafa lent í, en falið. Sögum af sjálfsvígstilraunum, kynferðisofbeldi, missi og sorg sem var falin. Takk elsku menn sem hafið opnað ykkur og rutt veginn. Þið eigið þátt í að skapa mönnum betri lífsskilyrði. Og ekki bara bæta okkar líf, heldur samferðafólks okkar og komandi kynslóða.

Áhrifin, umtalið og umfjöllunin sem #karlmennskan hefur fengið er svo langt umfram allt sem ég gat látið mig dreyma um. Það er kaldhæðnislegt að að þegar ég skrifaði stöðufærsluna var ég á leið til sálfræðings til að læra að takast á við neikvætt umtal. Viðurkenni að þessi eini sálfræðitími var kannski ekki alveg nægur undirbúningur fyrir það sem kom í kjölfar stöðufærslunnar. En ég á sem betur fer tíma aftur í þessari viku.

Vonandi finna fleiri menn kjark og sjá tilganginn í að stíga fram með sína reynslu. Vonandi heldur þessi seigfljótandi bylting áfram að hafa áhrif. Við erum allir bara mjúkar manneskjur með tilfinningar, vonir og þrár. Við viljum bara vera viðurkenndir og samþykktir eins og við erum. Bara fá að vera við. Einlægir, opnir og frjálsir.

Höldum áfram elsku strákar. Lifi #karlmennskan.

P.S. Hér er smá samantekt af reynslusögum.


Tengdar fréttir

Berjast gegn „eitraðri karlmennsku“ með reynslusögum

Samfélagsmiðlabylting undir myllumerkinu #karlmennskan hefur vakið mikla athygli á vefnum í dag. Að baki átakinu standa karlmenn sem vilja uppræta "eitraða karlmennsku“ og varpa ljósi á skaðlegar staðalímyndir.




Skoðun

Sjá meira


×