Viðskipti innlent

Kaup­auka­greiðslur á­stæða milljóna launa­hækkunar for­stjóra N1

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eggert Þór Kristófersson. forstjóri N1.
Eggert Þór Kristófersson. forstjóri N1. vísir/valli
Launahækkun Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra fyrirtækisins, á liðnu ári skýrist af kaupaukagreiðslum til hans vegna góðs árangurs í rekstri N1 á árinu 2016. Þetta kemur fram í skýrslu stjórnar fyrirtækisins sem lögð er fyrir aðalfund þess sem fram fer nú síðdegis í höfuðstöðvum fyrirtækisins en Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, kynnir skýrsluna.

Mikið hefur verið fjallað um launahækkun forstjórans undanfarna eftir að greint var frá því  að laun hans á árinu 2017 hefðu numið 70,5 milljónum króna eða um 5,9 milljónum króna á mánuði. Árið 2016 voru árslaunin hins vegar 58,4 milljónir króna eða sem nemur 4,8 milljónum króna á mánuði. Nam launahækkun hans á milli ára því í heildina 12,1 milljón króna eða rúmri milljón á mánuði.

Ýmsir hafa gagnrýnt þessar hækkanir, þar á meðal verkalýðsleiðtoginn Vilhjálmur Birgisson, sem sagði þessa hækkun Eggerts kornið sem fyllti mælinn fyrir komandi kjaraviðræður og boðaði átök á vinnumarkaði sem aldrei fyrr.

Þá var greint frá því í dag að Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, félags vélstjóra og málmtæknimanna, hygðist leggja fram þá tillögu á stjórnarfundi lífeyrissjóðsins Gildis að sjóðurinn seldi allt hlutafé sitt í N1 vegna launahækkunar forstjórans sem hann segir „ósmekklega.“

Heimilt að umbunda stjórnendum á tvo vegu samkvæmt starfskjarastefnu

Upplýsingarnar um launahækkun Eggerts Þórs voru fengnar úr ársreikningi félagsins og segir í skýrslu stjórnar að umræðan um hækkunina sé skiljanleg, þó ekki nema fyrir þær sakir að litlar skýringar fylgja í ársreikningnum. Því er launahækkun hans nú útskýrð í skýrslu stjórnar og þar vísað í starfskjarastefnu N1 sem taki sérstaklega á launum forstjórans.

Samkvæmt þeirri stefnu er heimilt að umbuna stjórnendum til viðbótar föstum launum á tvo vegu, annars vegar með því að greiða þeim árangurstengd laun og hins vegar með því að veita þeim kauprétt að hlutafé.

Glæra úr kynningu stjórnar sem sýnir launahækkanir innan N1 síðustu fjögur ár.
„Starfskjaranefnd félagsins er af hálfu stjórnar mótandi um framkvæmd starfskjarastefnunnar. Hún hefur ekki talið æskilegt að nýta þessa árangurshvata hvoru tveggja, en augljóst er að stjórnendur hefðu haft af því verulegan fjárhagslegan ávinning ef heimildir til útgáfu kauprétta hefðu verið nýttar, svo mjög sem verðmæti hluta í félaginu hefur aukist síðustu fjögur árin.

Núverandi kaupaukakerfi félagsins er að megin stofni frá árinu 2013 þegar N1 var skráð í Kauphöllina. Því var breytt að hluta til árið 2016 og tekur það nú tillit til bæði fjárhagslegrar afkomu, þ.e.a.s. árlegrar EBITDA í hlutfalli við áætlun og einstaklingsbundinna verkefna yfirstjórnenda. Þannig telja einstaklingsbundin verkefni 20% og EBITDA 80%. EBITDA bilið sem kaupaukinn nær til er 95-110%. Geta kaupaukagreiðslur til forstjóra hæst numið 6 mánaðarlaunum og til framkvæmdastjóra 3 mánaðarlaunum og hafa kaupaukagreiðslur svarað til 1 mánaða launa fram til ársins 2015 þegar afkoma félagsins tók að batna verulega og náði hámarki í fyrra vegna góðrar afkomu ársins 2016.

Árið 2016 var besta árið í sögu N1 og árangur á alla mælikvarða fór langt fram úr væntingum. Það leiddi til þess að skilyrðum kaupaukakerfisins fyrir hámarksgreiðslu var mætt. Þær greiðslur komu til framkvæmda í mars árið 2017 eftir að reikningur ársins 2016 hafði verið staðfestur og reiknast því sem hluti af launagreiðslum ársins 2017.

Mér er það alveg ljóst að laun forstjóra N1 eru mjög góð og eru alveg sérlega há á árinu 2017 eins og fram hefur komið. Ég vil hins vegar fullvissa ykkur um það, að við fylgjumst grannt með launahlutföllum innan félagsins þannig að tryggt sé að þróun launa yfirstjórnarinnar fari ekki úr takti við launaþróun almennra starfsmanna,“ segir Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, í kynningu á skýrslu stjórnar félagsins.

Því fari fjarri að stórfellt afbrot hafi átt sér stað

Þá er það jafnframt rakið að ef litið er fjögur ár aftur í tímann, það er til ársins 2013, þá sést að meðallaun á stöðugildi hjá N1 hafa hækkað um 27 prósent, laun vakt- og stöðvarstjóra hafa hækkað um 35 prósent og 34 prósent. Á sama tíma hafa föst laun og hlunnindi í framkvæmdastjórn félagsins hækkað um níu prósent og föst laun og hlunnindi forstjóra um þrjú prósent en um rúm 36 prósent ef kaupauki ársins 2017 er tekinn með.

„Ég rek þessar launaupplýsingar hér af meiri nákvæmni en áður hefur tíðkast enda skylt, þar sem úr átt hluthafa hafa heyrst býsna stóryrtar yfirlýsingar, eins og að stórfellt afbrot hafi átt sér stað. Ekkert er því þó fjarri. Raunar tel ég að býsna vel hafi tekist til um rekstur og stjórn N1 síðustu árin.

Hér á eftir er til afgreiðslu tillaga að óbreyttri starfskjarastefnu félagsins. Hún rúmar vel það kaupréttarkerfi sem fylgt hefur verið síðustu árin. Það byggir á töluverðri árangurstengingu sem getur leitt til umtalsverðrar sveiflu upp eða niður í kjörum framkvæmdastjórnar og þá einkanlega forstjóra. Ég hef á ári hverju upplýst að kjör yfirstjórnar væru tengd rekstrarárangri félagsins, svo það getur ekki hafa komið hluthöfum á óvart, enda beinlínis við það miðað í starfskjarastefnu félagsins. Í fyrra leiddi þessi tenging fram umtalsverða hækkun, í ár kemur hins vegar lækkun. Sjálf tel ég mikilvægt að yfirstjórnin hafi beina hagsmuni af því að vel takist til um reksturinn; í því liggi sameiginlegir hagsmunir stjórnenda og hluthafa. Við munum hins vegar hlusta grannt eftir því hvort hluthafar telji þörf fyrir áherslubreytingu eða vilji frekar nýta kaupréttarkerfi að hluta til að ná fram þeim áherslum sem að er stefnt.

Umræða undanfarinna daga hefur um sumt beinst að persónu Eggerts Þórs, sem tók við starfi forstjóra árið 2015. Ég vil að því tilefni segja að hann hefur verið afar farsæll stjórnandi og góður árangur í rekstri N1 hefur náðst undir dyggri stjórn hans. Hvert sem litið er í rekstrinum þá sjáum við jákvæða þróun,“ segir stjórnarformaður N1.


Tengdar fréttir

Forstjóri N1 hækkaði um milljón á mánuði

Laun og hlunnindi fimm helstu stjórnenda N1 hf. námu rúmum 210 milljónum króna í fyrra og hækkuðu um nærri 30 milljónir milli ára. Laun og hlunnindi forstjórans hækkuð um 20,7 prósent, eða sem nemur rúmri milljón á mánuði






Fleiri fréttir

Sjá meira


×