Innlent

Ósáttur með ummæli Bjarkeyjar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ekki er búist við því að þingflokkur Vinstri grænna fundi sérstaklega um stöðu Andrésar Inga Jónssonar og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur fyrr en eftir páska. Andrés og Rósa greiddu atkvæði með vantrauststillögu á hendur dómsmálaráðherra en Andrés segist ósáttur með ummæli þingflokksformanns í fjölmiðlum.

Vantrauststillagan var felld með 29 atkvæðum gegn 33 en allir þingmenn Vinstri grænna fyrir utan Rósu og Andrés greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Þingflokkurinn hefur enn ekki fundað sérstaklega um málið en Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir formaður þingflokks Vinstri grænna sagði nýverið í samtali við Fréttablaðið að samskipti innan flokksins væru erfið vegna þessa. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er í opinberri heimsókn í Þýskalandi og því er ekki líklegt að fundað verði um þetta mál innan þingflokksins fyrr en eftir páska.

Andrés segist ósáttur við yfirlýsingar Bjarkeyjar í fjölmiðlum.

„Við Bjarkey ættum að ræða þetta augliti til auglits. Hún hefði örugglega tjáð sig öðruvísi ef við hefðum sest niður saman og rætt þetta,“ segir Andrés. „Sum orð sem hafa verið látin falla voru mér ekki alltof mikið að skapi en ég held að það sé eitthvað sem gerist í hita leiksins þegar fólk er að tjá sig í gegnum fjölmiðla frekar en maður á mann,“ segir Andrés.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×