Innlent

Bein útsending: Segðu mér doktor...

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Peder Holk Nielsen, forstjóri Novozymes A/S í Danmörk, er aðalfyrirlesari fundarins.
Peder Holk Nielsen, forstjóri Novozymes A/S í Danmörk, er aðalfyrirlesari fundarins.
Háskóli Íslands býður til morgunverðarfundar um tækifærin sem felast í doktorsnámi og rannsóknum fyrir atvinnulíf og samfélag. Fundurinn hefst klukkan 8:30 í Hörpu og mun Vísir sýna beint frá honum. Nálgast má útsendinguna hér að neðan.

Á fundinum verður fjallað um það hvaða þýðingu rannsóknir doktorsnema og leiðbeinenda þeirra hafa í nútímasamfélagi og hvernig hægt er að efla námið enn frekar í samstarfi háskóla, atvinnulífs og stjórnvalda.  Formaður félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands gagnrýndi fundinn í samtali við Vísi í gær og sagði meðal annars að rödd doktorsnema væri ekki til staðar á fundinum.

Aðalfyrirlesari fundarins er Peder Holk Nielsen, forstjóri Novozymes A/S í Danmörku. Á vef háskólans kemur fram að í erindi sínu muni Nielsen fjalla um hvernig vísindin eru eina sjálfbæra leiðin til þess að leysa stærstu viðfangsefni mannkyns. Slíkt krefjist öflugs vísindasamstarfs einkageirans og hins opinbera ásamt eftirlitsaðilum víða um heim.

Sjá einnig: Segir 2007 blæ yfir fundi HÍ um doktorsnám

Meðal annarra fyrirlesara eru Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi starfsmaður háskólans og núverandi forseti Íslands, mennta- og menningarmálaráðherrann Lilja Alfreðsdóttir og rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson.

Með fundarstjórn fer Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas og í pallborði eru Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Ásthildur Otharsdóttir, stjórnarformaður Marel.

Dagskráin hefst sem fyrr segir klukkan 8:30.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×