Lífið

Sjónvarpsfólk missti andlitið eftir skrautlega smökkun

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hallgrímur smakkaði frumlegan súkkulaðieftirrétt í beinni í gær.
Hallgrímur smakkaði frumlegan súkkulaðieftirrétt í beinni í gær. RÚV
Hin árlega matreiðsluveisla Food and Fun hófst í gær og var fjallað um hátíðina í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi. Fréttamaðurinn Hallgrímur Indriðason var mættur í beina útsendingu frá veitingastaðnum Marshall úti á Granda. Þar ræddi hann við Leif Kolbeins, veitingamann á Marshall restaurant, en hann hefur tekið þátt í hátíðinni í tuttugu ár í röð.

Tuttugu veitingarstaðir taka þátt í Food and Fun að þessu sinni. Leifur gaf Hallgrími að smakka súkkulaðieftirrétt þar sem meðal annars mátti finna ferskan ríkotta ost og heslihnetur.

Það sem vakti sérstaka athygli voru viðbrögð Hallgríms þegar hann bragðaði á réttinum og sagði fréttamaðurinn:

„Þetta er ljómandi gott en ég hef aldrei bragðað neitt þessu líkt. Þetta er mjög sérstök blanda en virkilega góð,“ sagði Hallgrímur í beinni útsendingu á RÚV í gærkvöldi. Ekki voru fréttamennirnir í myndveri RÚV sannfærðir um að Hallgrímur væri að segja alveg sannleikann, ef marka má viðbrögð Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur og Hauks Harðarsonar en bæði voru þau í stökustu vandræðum að halda niðri í sér hlátrinum.

Twitter-notandinn Ólafur Thors vakti athygli á málinu í gærkvöldi og sagði hann: „My man smakkaði svo góða súpu að hann fékk heilablóðfall í beinni.“

Sjá má innslagið í heild sinni á vefsíðu RÚV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×