Innlent

Fjórir í gæsluvarðhaldi vegna gruns um innbrot á höfuðborgarsvæðinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Fjórir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins.
Fjórir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins. Vísir/GVA
Tveir til viðbótar hafa verið úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald vegna gruns um innbrot á höfuðborgarsvæðinu. Alls eru því fjórir í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglu á málinu. Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 í gær að alls hefðu fjórir menn verið handteknir vegna málsins.

Tveir voru úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald á þriðjudag vegna gruns um innbrot og tveir til viðbótar í gær, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.  Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði hendur í hári tveggja manna að morgni þriðjudags eftir að ábending barst frá árvökulum nágranna í Garðabæ um grunsamlegar mannaferðir.

Um svipað leyti og gæsluvarðhaldsúrskurður yfir mönnunum lá fyrir síðdegis á þriðjudag barst tilkynning um annað innbrot í Hafnarfirði. Ljóst var því strax að ekki hafi sömu aðilar verið að verki.

Allir hinna handteknu eru erlendir ríkisborgarar. 

Lögreglan gerði tvær húsleitir vegna málsins í gær og fann þar þýfi, skartgripi og peningar, upp á nokkrar milljónir króna. Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, sagði við Stöð 2 í gær að mennirnir væru ekki með íslenska kennitölu sem segir lögreglu að þeir hafi ekki dvalið hér. 

Unnið er nú meðal annars að því að kortleggja ferðalög mannanna en lögregla hefur grun um að við innbrotin hafi þjófarnir ferðast milli staða með strætó og á reiðhjólum.

Alls hefur lögreglan 60 innbrot á höfuðborgarsvæðinu til rannsóknar sem hafa átt sér stað undanfarna tvo mánuði. Handtökurnar fjórar eru sagðar mikilvægt skref í þágu rannsóknarinnar þótt málin séu ekki upplýst. Óvíst er enn þá hvort málin tengist.

„Þetta eru nokkrir hópar sem eru að herja á okkur. Við verðum að halda áfram vöku okkar fyrir þessu og nágrannavarslan enn og aftur, skiptir bara gríðarlega miklu máli,“ sagði Skúli í fréttum Stöðvar 2 í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×